Fara í efni
Mannlíf

Jólatréð frá Randers lýsir upp Ráðhústorg

Hluti Yngri barnakórs Akureyrarkirkju, sem söng á Ráðhústorgi í gærkvöldi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Ljósin voru tendruð á jólatrénu á Ráðhústorgi í gærkvöldi. Við þá árlegu athöfn er alla jafna töluverður fjöldi fólks viðstaddur síðdegis um helgi, en þar sem aðeins fáir mega koma saman nú um stundir vegna Covid var athöfninni haldið leyndri. Landsmönnum öllum gafst að vísu tækifæri til að þess að horfa á þegar Erik Valdemar Egilsson, sex ára, studdi á hnapp og kveikti á seríunni því augnablikið var sent út beint í fréttatíma Ríkissjónvarpsins.

Tréð er gjöf til Akureyringa frá vinabænum Randers í Danmörku sem fyrr. Fulltrúi frá danska sendiráðinu í Reykjavík, Adam Grønholm, mætti á staðinn ásamt konsúl Dana á Akureyri, Helga Jóhannessyni, til að afhenda tréð með formlegum hætti og veitti Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, því viðtöku.

Adam aðstoðaði síðan dönsk-íslensku systkinin Dagmar Elvíru, fjögurra ára, og Erik Valdemar, sex ára, við að kveikja á trénu; Erik tók af skarið, studdi á hnappinn og tignarlegt tréð lýsir nú upp Ráðhústorg Akureyringa.

Yngri barnakór Akureyrarkirkju söng nokkur jólalög við þetta tækifæri undir stjórn Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur.

Á myndinni styður Erik á hnappinn og þeir Adam horfa spenntir í átt að trénu til að gá hvort ekki hafi heppnast að kveikja ljósin! Dagmar Elvíra tekur öllu með stóískri ró.