Fara í efni
Mannlíf

Jólasveinar skemmtu sér á bretti á Pollinum

Hó, hó, hó ... Jólasveinarnir skemmtu sér vel og virtust ánægðir með athyglina sem þeir fengu. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Jólasveinar eru ólíkindatól eins og alþjóð veit. Tveir eiga að vera komnir til byggða samkvæmt áreiðanlegum heimildum, þeir Stekkjastaur og Giljagaur og því voru það væntanlega þeir sem léku sér á róðrabrettum á Pollinum um hádegisbil. Einhverjir bræðra þeirra virðast þó hafa ruglast í ríminu, flett dagatalinu of hratt eða bara laumast ofan úr fjöllunum áður en röðin kom að þeim. Hvað um það, altjent voru fleiri en tveir á bretti, skemmtu sér greinilega vel og fjöldi fólks fylgdist með af göngustígnum við Drottningarbraut eða úr bílum sínum.