Fara í efni
Mannlíf

Jólasveinar léku á als oddi í frostinu

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Brunagaddur var á Akureyri um hádegisbil í gær en nokkrir hraustir jólasveinar létu það ekki á sig fá heldur léku sér á róðrarbrettum á Pollinum og hjá  Samkomubrúnni við Drottningarbrautina. 

Sveinar þessar – séu þeir alvöru – hafa stolist til byggða því samkvæmt hinum fornu fræðum fær fyrsti bróðirinn, Stekkjastaur, ekki fararleyfi fyrr en aðfararnótt 12. desember. Hvað um það; spurst hafði út að eitthvað mikið stæði til og töluverður fjöldi fólks mætti á staðinn. Áhorfendur höfðu gaman af og ekki síður jólasveinarnir sjálfir. Þeir eru auðvitað ýmsu vanir en þarna töldu margir sig fá óyggjandi sönnun þess að bræðurnir eru engar kuldaskræfur. Að minnsta kosti einn þeirra datt í sjóinn en varð ekki meint af volkinu að því er virtist.

Gera má ráð fyrir að heimsókn þessara vösku og fjörugu sveina hafi yljað einhverjum um hjartarætur í gær – og svo sannarlega veitti ekki af í frostinu.