Fara í efni
Mannlíf

Jólakort og kveðjur síðan um aldamótin 1900

Fróðleiksmoli frá Minjasafninu á Akureyri

2. desember – Jólakveðjur

Fyrsta jóla- og nýárskortið í heiminum var gefið út í Englandi árið 1843, þremur árum eftir að frímerkið var fundið upp. Sending jóla- og nýárskorta breiddist eftir það hratt út um alla Evrópu og Norður-Ameríku á 19. öld.

Fyrstu jólakortin komu á markað á Íslandi kringum 1890 og voru dönsk eða þýsk. Nokkru eftir aldamót var byrjað að gefa út íslensk jóla- og nýárskort.

Um jólin 1932 byrjaði Ríkisútvarpið að senda jóla- og nýárskveðjur og voru þær í fyrstu einkum til sjómanna á hafi úti.

Jóla- og nýárskveðjum í kortum og útvarpi fjölgaði hratt alla 20. öldina og er enn sterkur siður sem þó tekur breytingum með breyttum samskiptaháttum og tækniþróun.

Kveðjur færast í auknum mæli yfir á stafrænt form á samskiptamiðlum og jólakortin sjálf breytast eftir því sem tæknin verður aðgengilegri á hverju heimili. Myndir, form og textar geta nú verið hönnuð frá grunni, prentuð út eða send stafrænt til vina og vandamanna. Sögur, annálar og ljósmyndir af viðburðum ársins skreyta oft kortin og hægt er að dreifa þeim út um allan veraldarvefin ef því er að skipta.

Þannig er kannski kortum sem pósturinn ber út að fækka á 21. öldinni en kveðjurnar eru mögulega fleiri og fara víðar en fólki óraði fyrir þegar fyrstu jólakortin voru send manna á millum um aldamótin 1900.

Haraldur Þór Egilsson er safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri. Fróðleiksmoli frá Minjasafninu birtist á Akureyri.net á hverjum degi til jóla.