Fara í efni
Mannlíf

Jóhann Valur vann Stóru upplestrarkeppnina

Jóhann Valur Björnsson, Matthildur Ingimarsdóttir og Arney Elva Valgeirsdóttir.

Jóhann Valur Björnsson úr Naustaskóla sigraði í Stóru upplestrarkeppninni á Akureyri að þessu sinni. Lokahátíð keppninnar fór fram í Kvosinni, sal Menntaskólans, í gær.

Það eru nemendur 7. bekkja grunnskóla bæjarins sem taka þátt í keppninni ár hvert. Forkeppni er haldin í hverjum skóla og þar valdir tveir fulltrúar á lokahátíðina, auk varamanns.

Matthildur Ingimarsdóttir, Giljaskóla, varð í öðru sæti í keppninni að þessu sinni og Arney Elva Valgeirsdóttir, Oddeyrarskóla, í þriðja sæti.

Að þessu sinni voru skáld keppninnar Bergrún Íris Sævarsdóttir og Kristján frá Djúpalæk. Lesið var í þremur umferðum og í fyrstu umferð fluttu þátttakendur svipmyndir úr bók Bergrúnar Írisar, Kennarinn sem hvarf. Í annarri umferð voru lesin ljóð eftir Kristján frá Djúpalæk og í síðustu umferð valdi hver flytjandi sér ljóð til flutnings.

Upphafsdagur Stóru upplestrarkeppninnar er ætíð 16. nóvember, fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar; dagur íslenskrar tungu. Fram að lokakeppni leggja nemendur og kennarar áherslu á að æfa upplestur, vanda framburð og huga vel að áherslum, túlkun og framkomu í ræðustóli.

„Að venju voru nemendur sér og skólum sínum til mikils sóma þennan dag og dómarar hafa ekki verið öfundsverðir af því hlutskipti að velja einn fremur öðrum í verðlaunasæti. Eins og áður var það Ingibjörg Einarsdóttir sem var formaður dómnefndar en hún er einn af upphafsmönnum keppninnar, sem fór fyrst fram í Hafnarfirði fyrir tuttugu og fimm árum,“ segir á heimasíðu Akureyrarbæjar.

„Ómissandi þáttur hátíðarinnar er tónlistarflutningur nemenda Tónlistarskólans á Akureyri. Tónlistarflytjendum og kennurum þeirra eru færðar bestu þakkir fyrir allan þeirra undirbúning og æfingar sem skiluðu sér í vönduðum og góðum flutningi.“

Smellið hér til að sjá fleiri myndir frá lokahátíðinni.