Fara í efni
Mannlíf

Jarðýtan í sérstöku uppáhaldi hjá Margréti

Margrét Dana Þórsdóttir, vélstjórnarnemi í VMA. Mynd: vma.is.

Margrét Dana Þórsdóttir er nemi í vélstjórn við Verkmenntaskólann á Akureyri og ein fárra kvenna á þeirri námsbraut, þar sem karlar hafa lengst af verið í miklum meirihluta. Hún segist þó ekki hugsa mikið út í kynjahlutföllin, enda sé hún vön því úr verktakabransanum að starfa nær eingöngu með körlum. Vélaáhuginn kviknaði snemma, en Margrét hefur starfað hjá fjölskyldufyrirtækinu Skútabergi ehf. frá unga aldri og vinnur þar áfram um helgar, meðal annars við vegagerð á Suðausturlandi þar sem fyrirtækið sinnir undirverktöku fyrir Ístak.

Rætt er við Margréti Dönu á vefsíðu VMA  og þar kemur meðal annars fram að það voru fyrrnefndur áhugi hennar á vélum og reynsla úr vélaheiminum sem leiddu hana að vélstjórnarnáminu, sem hún segir bæði krefjandi og gefandi. Hún hóf námið á brautabrú, fór síðan í grunndeild málmiðnaðar og heldur nú áfram í vélstjórn, sem skiptist í fjögur stig – A til D – þar sem lokastigið veitir réttindi yfirvélstjóra á skipum með ótakmarkað vélarafl. Margrét segir í viðtalinu að hún hafi ekki ennþá ákveðið hversu langt hún ætli að fara í vélstjórnarnáminu.

Margrét lýsir náminu sem blöndu af bóklegu og verklegu námi og það sé bæði áhugavert og gefandi. Fyrir hana er bóklegi hlutinn sérstaklega krefjandi en þótt hún glími við bæði les- og talnablindu lætur hún það ekki stöðva sig og nýtir sér stafrænar hjálparleiðir til að yfirstíga hindranir. Hún hefur einnig vinnuvélapróf, vinnur á ýmsum vélum en hefur sérstakt dálæti á jarðýtum. Hún þarf þó að bíða í rúm tvö ár, eða til 21 árs aldurs, til að öðlast meirapróf og geta þá keyrt stærri bíla.

Viðtalið við Margréti Dönu á vef VMA