Fara í efni
Mannlíf

Jákvæðni, gleði og falleg jakkaföt

Hlyni líður sjaldan betur en í jakkafötum en hann á um 100 slík. Hann hefur mikla sköpunarþörf og fær útrás fyrir hana í klæðaburðinum og á samfélagsmiðlum. Þið finnið hann á Instagram undir nafninu Hj Elite.

Akureyringurinn Hlyn­ur M. Jóns­son, hefur vakið nokkra athygli á samfélagsmiðlum fyrir lífleg videó og myndir sem hann deilir undir nafninu Hj Elite. Hann er tiltölulega nýlega fluttur aftur í sinn heimabæ eftir ævintýralega búsetu á Kýpur þar sem hann starfaði m.a. sem fasteignamiðlari en leitar nú nýrra tækifæra.

„Kýpur var ævintýri sem gekk ekki upp vegna breyttra aðstæðna. Síðustu tvö ár hafa verið erfið vegna covid og svo bættist Úkraínustríðið ofan á en Rússar og Úkraínumenn eru stærstu fjárfestarnir á fasteignamarkaðinum þarna,“ segir Hlynur. Hann er þó síður en svo kominn heim með skottið á milli lappanna, enda eindæma jákvæður að eðlisfari og Kýpurdvölin góð í reynslubankann að hans sögn.

Hlynur er alltaf vel klæddur og fór því að sjálfsögðu í jakkafötum í Zip line Akureyri.

Langaði að búa í sólarlandi

Hlynur, sem er menntaður þjónn og ferðamálafræðingur, flutti til Norður Kýpur fyrir þremur árum þar sem hann fékk vinnu sem hótelstjóri á nýopnuðum fimm stjörnu ferðamannastað (resort). „En svo kom covid og það var hreinlega ekki grundvöllur fyrir því að halda hótelinu opnu svo því var að lokum lokað. Í stað þess að fara heim ákvað ég að reyna fyrir mér við fasteignamiðlun,“ segir Hlynur. Hann segir að það hafi fyrst og fremst verið ævintýramennska sem hafi leitt hann til Kýpur en hann hafði lengi gengið um með þann draum að búa í sólarlöndum og Kýpurdvölin uppfyllti þann draum.

Kýpur er þriðja stærsta eyja Miðjarðarhafsins og skipta Grikkir og Tyrkir henni á milli sín. Hann segir eyjuna vera fallega og samfélagið vinalegt. Þar sé alla þjónustu að finna og skattar lágir. Hlynur bjó á norðurhluta eyjunnar, sem tilheyrir Tyrklandi, og segir hann stemminguna mun afslappaðri þar heldur en á meginlandi Tyrklands t.d. varðandi trúariðkun, kvenréttindi og áfengisneyslu. Þó eyjan sé skipt milli tveggja þjóða þá líta íbúar hennar frekar á sig sem Kýpverja fremur en Grikki eða Tyrki og er þjóðarstolt þar mikið. Hlynur segir eyjuna friðsæla og að það sé virkilega ódýrt að lifa þar eða þrisvar sinnum ódýrara heldur en á Íslandi. Honum hafi því brugðið nokkuð þegar hann flutti aftur heim til Akureyrar. „Ætli það sé ekki stærsta sjokkið að kaupa máltíð á 5000 kall en ekki á 100 kall eins og á Kýpur.“

Ljós jakkaföt og sólgleraugu. Hlynur heldur í Miðjarðarhafslúkkið þó hann sé kominn heim.

Alltaf haft áhuga á tísku

Á þeim tíma sem Hlynur starfaði sem fasteignamiðlari á Kýpur var hann mjög sýnilegur á samfélagsmiðlum, enda hluti af starfinu fólginn í því að „selja eyjuna“ og Miðjarðarhafslífsstílinn. Eins og sést í myndböndum Hlyns frá þessum tíma átti þetta vel við hann en hann tók sölumennskuna oft í óvenjulegar áttir með dansvídeóum þar sem hann dansaði t.d. í jakkafötum út í sjó. Hann viðurkennir þó að fasteignamiðlunin hafi líka verið hark, sérstaklega þegar Úkraínustríðið skall á því þá harnaði á dalnum þar sem Rússar og Úkraínumenn voru aðalfjárfestarnir á eyjunni. Miðjarðarhafslífstílinn hentaði Hlyni þó afar vel, ekki síst klæðaburðurinn, þar sem hann hefur alltaf heillast af elegant fatnaði, klæðnaði á borð við jakkaföt, ljósar buxur, léttar skyrtur og áberandi fylgihluti. „Ég hef alltaf haft áhuga á tísku og finnst gaman að klæða mig vel. Á tímabili langaði mig til að hanna mína eigin fatalínu,“ segir Hlynur sem á um 100 jakkaföt. Hann viðurkennir að fataval hans, sem einkennist af snyrtimennsku og fáguðum íburði, veki vissulega athygli, sérstaklega á Akureyri. Hann lætur t.d. varla sjá sig utandyra öðruvísi en í jakkafötum, þó tilefnið sé ekki annað en að líta vel út dags daglega. Til marks um það þá fór hann t.d. í Zip line á Akureyri íklæddur jakkafötum.

Áður en Hj Elite fór út í Kýpurævintýrið rak ferðaþjónustufyrirtækið Akureyri Luxury Travel sem bauð upp á sérsniðnar ferðir og limmósínuþjónustu.

Opinn fyrir nýjum tækifærum

Hlynur segist bara hafa gaman af athyglinni sem útlitinu fylgir enda hefur hann haft ríka athyglisþörf allt frá barnæsku þar sem hann fékk útrás fyrir athyglina í kórastarfi og leiklist. „Mér finnst gaman af allri sköpun, að prófa nýja hluti og gera eitthvað flippað enda er ég fæddur í Tvíburamerkinu,“ segir Hlynur og bætir við að hann hafi fengið mikla útrás fyrir sköpunarþörf sína í videóunum sem hann vann á Kýpur. Þá segir hann að hann gæti vel hugsað sér að taka þessa sköpunarþörf á næsta stig, t.d. yfir í skemmtiþátt í sjónvarpi. „Mitt mesta yndi er að skemmta og þjónusta fólk. Fá það til að brosa.“

En að nútíðinni, hvað er Hlynur núna að fást við á Akureyri?

„Ég er bara fluttur inn til mömmu og pabba,“ segir Hlynur og hlær, og er greinilega með húmor fyrir stöðunni en hann er einhleypur og á eina unglingsdóttur. „Ég er að líta í kringum mig og er opinn fyrir nýjum tækifærum en það er ekkert fast í hendi. Ég hef verið að leiðsegja ferðamönnum í sumar en væri alveg til í að reyna fyrir mér sem flugþjónn. Þá væri ég alveg til í að búa aftur erlendis, en þetta kemur bara allt í ljós,“ segir Hlynur sem segist vera bæði þolinmóður og þrautseigur. „ Ætli maður taki ekki bara íslensku leiðina á þetta og segi, þetta reddast.“