Fara í efni
Mannlíf

Engin grið gefin í Garðabænum

Úr leik liðanna á Greifavellinum í fyrrasumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Ekki tókst KA-mönnum að fylgja eftir fyrsta deildarsigrinum úr 7. umferðinni þegar þeir sóttu Stjörnumenn heim í Garðabæinn í 8. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu nú síðdegis. Þeir voru raunar aldrei nálægt því að fá nokkuð út úr leiknum, lentu tveimur mörkum undir eftir 11 mínútur og niðurstaðan fimm marka tap þegar upp var staðið. KA-menn léku án Ívars Arnar Árnasonar, sem tók út leikbann vegna uppsafnaðra áminninga. 

Stjörnumenn voru mun sterkari aðilinn í leiknum þó KA-menn hafi nokkrum sinnum komist í stöður til að skapa sér góð færi. Tvisvar í fyrri hálfleiknum komust þeir í tækifæri, en Stjörnumenn mun skeinuhættari allan leikinn.

1-0
Örvar Eggertsson kom heimamönnum Garðabænum yfir strax á 3. mínútu leiksins þegar Stjörnumenn unnu boltann á miðjum vallarhelmingi KA, komu boltanum yfir til vinstri inn í teig þar sem Örvar átti hnitmiðað skot með jörðinni í fjærhornið. Litlu munaði að KA tækist að jafna strax eftir að þeir hófu leik að nýju, en Árni Snær Ólafsson varði vel frá Daníel Hafsteinssyni.

2-0
Emil Atlason jók á vandræði KA-manna strax á 11. mínútu þegar hann fékk sendingu inn á teiginn hægra megin og afgreiddi boltann af öryggi framhjá Steinþóri Má Auðunssyni, markverði KA.

3-0
Þriðja mínútan var ekki happamínúta KA-manna í þessum leik því eins og í fyrri hálfleiknum fengur þeir mark á sig á þriðju mínútu seinni hálfleiksins þegar Emil Atlason skoraði sitt annað mark með góðu skoti utan úr teig eftir undirbúning Helga Fróða Ingasonar.

4-0
Helgi Fróði Ingason bætti svo marki í safnið eftir að hafa lagt upp þriðja markið. Stjörnumenn brunuðu þá upp hægri kantinn, Óli Valur Ómarsson kemur boltanum fyrir markið, Haukur Örn Brink nær ekki skotinu, en Helgi Fróði Ingason skorar af stuttu færi. 

5-0
Lýsandinn á fotbolti.net notaði orðið slátrun í sinni lýsingu, norðanmönnum væri slátrað í Garðabænum, og það má til sanns vegar færa því aðeins um þremur mínútum eftir fjórða mark Stjörnunnar kom það fimmta. Guðmundur Baldvin Nökkvason opnaði vörn KA-manna, kom boltanum til hægri inn á teiginn þar sem Róbert Frosti Þorkelsson var mættur og kláraði færið af yfirvegun.

Annað árið í röð fá KA-menn slæma útreið á Samsung-vellinum, 4-0 tap í fyrra og 5-0 tap í dag. KA er því áfram í næstneðsta sæti deildarinnar með fimm stig, tveimur stigum á eftir Vestra, en fjórum stigum meira en Fylkir sem situr á botninumm.

Smellið hér til að skoða leikskýrsluna.