Fara í efni
Mannlíf

Hyggst ganga rúma 200 km á skíðum í einni lotu

Andri Teitsson, Skíðafélagi Akureyrar, bæjarfulltrúi er kunnur skíðagöngu- og hlaupagarpur. Þegar hann festir á sig gönguskíðin fyrir hádegi í dag stefnir Andri að því að linna ekki látum fyrr en að hann hefur lagt að baki lengri leið en Íslendingur hefur gert hingað til í einni lotu, að því hann best veit.

Ólympíufararnir Snorri Einarsson, Albert Jónsson og Einar Ólafsson hafa allir gengið 203 kílómetra í einni lotu, segir Andri, og markmiðið er því að ganga lengra en það. „Ég fer hægar yfir, en treysti á seigluna í staðinn,“ segir Andri. Hann leggur af stað kl. 11.00 í dag frá gönguhúsinu í Hlíðarfjalli og gerir ráð fyrir að ljúka verkefninu upp úr hádegi á morgun, föstudaginn langa. 

Andri nefnir að fólk sé velkomið upp í fjall til að fylgjast með honum hafi það áhuga. Góðu veðri er spáð í dag.