Fara í efni
Mannlíf

Hyggjast blása lífi í sjómannadaginn

Hugmyndir eru uppi um að búa til skemmtilega bryggjustemningu í Sandgerðisbótinni. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Forkólfar Iðnaðarsafnsins hyggjast blása lífi í sjómannadaginn í ár með hátíðarhöldum. Lítið hefur verið um að vera nokkur undanfarin ár en í fyrra var safnið með opið og svokallað sjómannaþema, það þótti takast svo vel að nú verður bætt í. Sjómannadagurinn er sunnudagurinn 4. júní.

„Hugmyndin er að fá trillu- og verbúðareigendur í Sandgerðisbótinni til að taka þátt í því að búa til bryggjustemmingu með opnun verbúða,  jafnvel til að gefa harðfisk sem ég veit að margir eru að framleiða, skoða má möguleika á sölu á t.d harðfiski og signum fiski svo eitthvað sé nefnt. Jafnvel að leyfa fólki að skoða báta,“ segir Sigfús Ólafur Helgason, safnstjóri Iðnaðarsafnsins.

Sigfús nefnir þá hugmynd að fá harmonikkuleikara til að vera um borð og eða á röltinu um bryggjusvæðið og spila sjómannalög. Vera með svið Akureyrar þar sem hægt væri að bjóða upp á söng. Hann nefnir einnig að við hæfi yrði að endurvekja þann sið að heiðraða aldraða sjómenn.

Drög stjórnenda Iðnaðarsafnsins að dagskrá er á þessa leið:

Föstudagur 2. júní
Iðnaðarsafnið opið kl. 13.00 til 16.00 – Merkra tímamóta í skipasmíðasögu KEA minnst; 60 ár frá smíði Húna ll og 80 ár frá smíði Snæfellsins – 25 ára afmælisveisla Iðnaðarsafnsins – afhjúpun líkans af Húna ll – rjómatertur, kleinur , kaffi og gosdrykkir – ræðuhöld – harmonikkuleikur.

Laugardagur 3. júní
Sandgerðisbót kl. 10.00 – bryggjurölt – harmonikkuleikarar um borð í trillum – verbúðir opnar, harðfiskur að hætti trillukalla – kaffi og kleinur fyrir gesti og gangandi, einnig drykkir fyrir börn – sjómenn heiðraðir – tónlistaratriði á sviði.

Við Nökkvahúsið kl. 13.00 til 16.00 – vatnaveröld barna – kæjakar frá Nökkva – bílslöngur – seglbretti og fleira.

Akureyrarhöfn Nýr dráttarbátur hafnasamlagsins verður til sýnis.

Akureyrarpollur kl. 10.00 til 16.00 – siglingaklúbburinn Nökkvi.

Húni ll verður við Torfunefsbryggju, opinn almenningi frá kl. 16.00 - 19.00. Líkanið af skipinu til sýnis.

Sunnudagur 4. júní
Fánar dregnir að húni í bænum.

Akureyrarhöfn – Húni siglir með bæjarbúa í boði Sjómannafélags Eyjafjarðar kl. 13.15. Hópsigling smábáta frá Sandgerðistbót til móts við Húna og sigling inn á Akureyrarpoll - kl. 14.15 og 15.15.

Glerárkirkja kl. 11.00 – sjómannamessa. Að lokinni messu verður blómsveigur lagður að minnisvarða um drukknaða/horfna sjómenn.