Fara í efni
Mannlíf

„Hve fagurt var þann dag“ í Lystigarðinum

Bjarki Tryggvason syngur lagið fræga, Í sól og sumaryl, í Lystigarðinum í gær. Ljósmynd: Skapti Hall…
Bjarki Tryggvason syngur lagið fræga, Í sól og sumaryl, í Lystigarðinum í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Fjölmenni mætti í Lystigarðinn um miðjan dag í gær á sumarfagnað Flokks fólksins, hlýddi á gamanmál og söng flokksmanna, en að öðrum ólöstuðum var það án nokkurs vafa einn maður sem dró lungann úr hópnum á staðinn; Bjarki Tryggvason sem söng lagið Í sól og sumaryl sem hann gerði ódauðlegt með hljómsveit Ingimars Eydal fyrir nákvæmlega hálfri öld. Lagið var gefið út 1972.

Bjarki hafði nánast ekkert sungið í 40 ár þar til í gær! Það heyrðist eðlilega en hann gerði sér þó lítið fyrir og flutti lagið tvisvar; snemma á dagskránni og síðan lauk fagnaðinum með því að hann söng lagið á ný við undirleik Stuðmannsins Jakobs Frímann Magnússonar, þingmanns Flokks fólksins í kjördæminu.

Ekki var sérlega sumarlegt í sælureit Akureyringa þegar fólk safnaðist saman og samkoman, sem átti að vera úti undir berum himni, því flutt  inn á kaffihúsið LYST. Þar var þröngt setinn bekkurinn og margir fyrir utan. Þegar á leið – eftir að Bjarki hóf upp raust sína hið fyrra sinn, eins og haft var á orði – braust sólin hins vegar fram úr skýjunum; hve fagurt var þann dag, segir í textanum og það átti við.

„Þetta var allt í lagi!“ sagði Bjarki við Akureyri.net eftir að samkomunni lauk. Jakob Frímann – hver annar! – átti hugmyndina að því að fá Bjarka til að koma fram. „Ég hef alltaf neitað því að syngja þetta lag; hef oft verið beðinn síðustu áratugi en núna var ég í einhverju stuði þegar Jakob hringdi í mig,“ sagði Bjarki. Jakob býr yfir miklum sannfæringarkrafti og Bjarki gat ekki neitað því að gaman væri að flytja lagið í Lystigarðinum, þar sem Gylfi Ægisson samdi það eins og frægt er. „Ég á margar yndislegar minningar úr þessum garði,“ sagði Innbæingurinn Bjarki Tryggvason, „bæði að nóttu sem degi.“

Fortíðarþráin leyndi sér ekki í garðinum í gær, nær allir viðstaddir tóku undir með Bjarka, enda á þeim aldri að Sjallinn var þeirra staður þegar hljómsveit Ingimars Eydal var og hét.

Jakob Frímann Magnússon, þingmaður Flokks fólksins með meiru, er afar hugmyndaríkur og býr yfir miklum sannfæringarkrafti. Hann fékk Bjarka til þess að syngja Í sól og sumaryl í Lystigarðinum. Hér eru þeir félagar á þessum fallega stað eftir að samkomunni lauk.

Fjölmennt var á samkomunni í gær. Bjarki stendur þarna við merki Flokks fólksins og Jakob Frimann situr við hljómborðið.