Fara í efni
Mannlíf

Hvatt til lestrar með ratleik í Kjarnaskógi!

Hvatt til lestrar með ratleik í Kjarnaskógi!

Alþjóðadagur læsis er runninn upp og af því tilefni hefst í dag skemmtilegt verkefni sem lengi hefur verið í undirbúningi; ratleikurinn Úti er ævintýri í Kjarnaskógi.

Tilgangur ratleiksins er að hvetja til lestrar, leikurinn er hugsaður til frambúðar á þessu vinsæla útivistarsvæði og öllum er heimilt að taka þátt. Til dæmis er upplagt fyrir fjölskyldur að leika sér saman í skóginum, segja aðstandendur verkefnisins.

Leikurinn gengur út á að þátttakendur leita að persónum úr vinsælum barnabókmenntum í skóginum. Verkefnið sameinar lestur, barnamenningu, útivist, hreyfingu, listsköpun, náttúru- og menningarlæsi. Það er hugsað til þess að auðga menningarlíf í bænum og hvetja bæjarbúa og gesti til að nýta útivistarmöguleikana innan bæjarmarkanna enn betur.

Einfalt og skemmtilegt

Í dag verður sett upp skilti við aðalbílastæðið í Kjarnaskógi, hugmyndin var að vera með opnunarhátíð en vegna Covid verður ekkert af því.

Þeir sem vilja fara í ratleikinn mæta einfaldlega á staðinn með snjallsíma og skanna QR kóða sem er á skiltinu. Þar með opnast bók með vísbendingum og hver og einn fer svo á sínum hraða gegnum ratleikinn.

Krakkar í þriðja og fjórða bekk grunnskólanna á Akureyri völdu sögupersónurnar, hönnuðu og smíðuðu á sumarlestrarnámskeiði Amtsbókasafnsins og Minjasafnsins, sumarið 2020 og 2021. Með börnunum unnu listamaðurinn Ólafur Sveinson, Hólmfríður Björk Pétursdóttir, barnabókavörður, og Ragna Gestsdóttir, safnfræðslufulltrúi á Minjasafninu. Þá komu unglingar úr vinnuskólanum og atvinnuátaki Akureyrarbæjar einnig að verkefninu.

Til frambúðar

Stefnt er að því að ratleikurinn verði í Kjarnaskógi til frambúðar og sögupersónurnar voru smíðaðar með það fyrir augum að endast lengi, segir Íris Hrönn Kristinsdóttir, sérfræðingur á Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. „Það er virkilega gaman að fara og skoða sögupersónurnar og sjá hversu mikla vinnu börnin lögðu í þær, þau lásu um persónurnar, kynntu sér persónuleika þeirra, hönnuðu verkin og smíðuðu svo persónurnar frá grunni. Virkilega flott listaverk sem sóma sér vel í skóginum og gleðja vonandi bæði börn og fullorðna sem eiga leið um skóginn,“ segir Íris.

  • Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, hefur helgað 8. september málefnum læsis síðan 1965. Í ár taka Íslendingar þátt í þessum alþjóðlega degi í 12. skipti og hafa Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Bókasafn HA, Amtsbókasafnið, Barnabókasetur og fræðslusvið Akureyrarbæjar starfað saman að undirbúningi ýmissa læsisviðburða í tilefni dagsins í gegnum tíðina.
  • Undanfarin tvö ár hefur þetta stóra verkefni – Ratleikurinn Úti er ævintýri – verið í undirbúningi og verður að veruleika í dag. Þetta er samstarfsverkefni undirbúningshóps um alþjóðadag læsis, barna og ungmenna á Akureyri og fjölda stofnana og fyrirtækja sem hafa lagt málefninu lið.

Hér eru nokkrar myndir frá sumarnámskeiðunum þar sem börnin smíðuðu sögupersónur ratleiksins.