Fara í efni
Mannlíf

Sumarnámskeið fyrir börn – Hvað er í boði?

Gott úrval er af sumarnámskeiðum fyrir börn og unglinga á Akureyri í sumar. Mynd: Ekaterina Novitskaya/Unsplash

Nú styttist í það að grunnskólar Akureyrar fari í sumarfrí og margir foreldrar því farnir að spá í sumartómstundir fyrir börn sín.  Akureyri.net hefur kynnst sér úrvalið og tekið saman lista yfir helstu námskeið sem eru í boði. Eins og sjá má hér fyrir neðan er úrvalið fjölbreytt og hægt að skrá sig bæði í íþróttir af ýmsum toga, sumarbúðir, sumarskóla og listasmiðjur. 

  • Reiðnámskeið Léttis

    Hestamannfélagið Léttur stendur fyrir nokkrum reiðnámskeiðum í sumar fyrir börn á grunnskólaaldri. Námskeiðin eru  á tímabilinu júní-ágúst. Boðið er upp á námskeið bæði  fyrir minna vana og meira vana. Fyrir nánari upplýsingar hafið samband við lettir@lettir.is  Kennt er í reiðhöll Léttis í Lögmannshlíð. 

  • Golfskóli GA

Golfklúbbur Akureyrar verður með golfskóla í sumar fyrir krakka á aldrinum 6-14 ára sem vilja læra grunntækni golfsins. Boðið er upp á 6 námskeið á tímabilinu 2. júní - 1. ágúst. Hvert námskeið er vika í senn. Kennt er á morgnana frá 10 til 12.30 og er hægt að fá lánaðar kylfur á staðnum.

  • Leiklistarnámskeið í Hofi

Fjögur leiklistarnámskeið verða í boði í Hofi í sumar á vegum Leikfélags Akureyrar. Hvert námskeið stendur í fjóra daga í senn. Námskeiðin eru fyrir börn fædd 2015 - 2018. Tvö námskeið verða í júní og tvö í ágúst. Kennt er á morgnana. Kennarar eru Margrét Sverrisdóttir og Jenný Lára Arnórsdóttir.

  • Leikjanámskeið í Skautahöllinni

Skautafélag Akureyrar verður með tvö leikjanámskeið í júní. Leikjanámskeiðin fara fram bæði á útisvæðinu við Skautahöllina og inni á skautasvellinu. Hægt er að velja á milli þessa að vera í listskautum eða í fullum hokkíbúnaði í leikjunum á námskeiðinu. Allur búnaður er innifalinn og engin reynsla á skautum nauðsynleg.

Mynd: www.ka.is

  • Leikjaskóli KA í Naustaskóla

Leikjaskólinn fer fram í íþróttahúsinu við Naustaskóla í júní og júlí. Skólinn er eingöngu fyrir krakka fædda 2014 - 2019 og stendur frá kl 08:00 á morgnanna og lýkur kl.12:30. Greitt er fyrir staka viku í senn en alls eru 8 námskeið í boði. Hámarksfjöldi á hvert námskeið er 100 börn. Þá gefst öllum börnum sem æfa knattspyrnu hjá félaginu verður gefinn kostur á að fara á æfingu, annaðhvort á skólatíma eða þegar skólanum lýkur. Fá krakkarnir fylgd með starfsmönnum skólans.

  • Fim-leikjaskólinn

Fimleikadeild KA verður með fim-leikjaskóla fyrir 7-10 ára (2015-2018) í íþróttahúsinu við Giljaskóla. Hvert námskeið stendur í viku og verða alls 4 námskeið í boði.Námskeiðin samanstanda af fimleikaæfingum og ýmsum leikjum, bæði úti og inni.

  • Sumarnámskeið í Glerárkirkju og í Akureyrarkirkju

Í Glerárkirkju verða í boði þrjú sumarnámskeið fyrir krakka í 1.-4. bekk í sumar. Námskeiðin eru í júní og eru frá kl. 9 til 15.   Akureyrarkirkja ætlar líka ð bjóða upp á tvö ókeypis sumarnámskeið og eru bæði náskeiðin í júní. Námskeiðin eru fyrir krakka á aldrinum 10-12 ára.

  • Grunnnámskeið í skyndihjálp

Þann 10. Júní verður haldið skyndihjálparnámskeið í húsnæði Rauða krossins að Viðjulundi 2.  Námskeiðið er ætlað börnum og ungmennum á aldrinum 12-16 ára sem vilja læra grunnatriði skyndihjálpar og öðlast lágmarksfærni í að veita slösuðum eða veikum aðstoð í bráðatilfellum. Námskeiðið stendur frá 16.30-20. 30.

  • Dansað, leikið, skapað og föndrað hjá DSA

Danstúdíó Alice verður með tvö skapandi leikjanámskeið í boði í júní fyrir börn fædd 2018-2015. Hvort námskeið eru 4 virkir dagar og verður boðið upp á skapandi verkefni inni og úti í náttúrunni.

  • Fjölbreytt sumarnámskeið hjá Steps

Steps dansstúdíó verður með fjölbreytta dagskrá í boði í sumar. Þar verður t.d boðið upp á tveggja vikna krílanámskeið fyrir börn fædd 2019-2020 dagana 30. júní - 11. júlí og dans- og leikjaskóla fyrir krakka í 1.-3. bekk 30. júní-4. júlí.

Mynd: Facebooksíða Gokart Akureyri

  • Gokart akstursnámskeið

Í sumar verða boði í Gokart námsskeið fyrir krakka á aldrinum 10 til 17 ára. Námskeiðin verða haldin á tímabilinu 10. júní til 15. ágúst. Hvert námskeið stendur í viku en þó aðeins í 1 klst á dag. Á námskeiðinu er krökkum kennd umgengni og grunnviðhald á Gokart bílum og skilningur á akstri, akstursöryggi og lestri á aksturslínum. Allir fá til afnota galla og öryggishjálma.

  • Stuð í sumarbúðunum að Ástjörn og á Hólavatni

Sumarbúðir verða í boði bæði á Ástjörn og Hólavatni en báðar sumarbúðirnar hafa verið vinsælar hjá Akureyrskum krökkum. Á Ástjörn eru allir flokkar blandaðir og hver dvöl er í 8 sólarhringa. Á Hólavatni er í boði bæði blandaðir flokkar og stelpuflokkar og er hver dvöl 4 dagar.

  • Hreyfing hjá NorðurAK

Líkamsræktarstöðin Norður Akureyri verður með námskeið fyrir krakka í boði í sumar á tímabilinu 10. júní - 13. ágúst. Þrír hópar verða í boði: 6-9 ára þriðjudaga og fimmtudaga kl. 9:45 og 10-14 ára þriðjudaga og fimmtudaga kl. 11 og 14:30.

    • Félagsmiðstöðvafjör í júní

Fyrir árganga 2012-15 verður félagsmiðstöðvafjör í boði í sumar á tímabilinu 9.-19.júní. Ýmislegt skemmtilegt verður brallað, eins og að grilla, fara í sund og hjólaferðir. 


Mynd tekin í Vísindaskólanum í fyrra af Axeli Darra Þórhallssyni. 

  • Pöddur, gervigreind og fleira í Vísindaskóli Unga fólksins

Vísindaskólinn verður haldinn í ellefta sinn dagana 23.-27. júní. Markmið Vísindaskólans er að bjóða ungmennum fædd 2012-2014 upp á fræðandi og skemmtilega afþreyingu í gegn um fimm námskeið sem nemendur fara allir í gegnum.

  • Keramik, málun, teikning og grafík

Samlagið sköpunarverkstæði, Gránufélagsgötu 46, verður með sumarlistnámskeið í boði fyrir krakka í júní . Í boði eru hópar bæði fyrir 6-11 ára og fyrir 12-16 ára. Farið verður í mismunandi listmiðla eins og keramik, málun, teikningu og grafík. Afraksturinn verður sýndur á sýningu þann 27. júní í Samlaginu. Skráning á Abler undir Rósenborg.

  • Siglinganámskeið hjá Nökkva

Siglingaklúbburinn Nökkvi verður með siglinganámskeið fyrir krakka á aldrinum 8-15 ára. Hvert námskeið stendur í viku og er hægt að velja um tíma bæði fyrir og eftir hádegi á tímabilinu 10. júní-15. ágúst.  Börnin kynnast og læra á seglbáta, kajaka og árabáta, ásamt því að læra öryggis- og umgengisreglur um báta og sjó.

  • Þriggja daga vísindasmiðja 
Vísindasmiðja  verður haldin á Amtsbókasafninu fyrir krakka á aldrinum 7-12 ára dagana 10.-12. júní. Audrey Louise Matthews, lektor við Háskólann á Akureyri, verður með  fræðslu um föst efni, vökva og lofttegundir, náttúrulegar og manngerðar fjölliður og plast. Gerðar verða tilraunir og listaverk til þess að auka þekkingu krakkanna á þessum efnum og áhrifum þess á umhverfið okkar. Skráning er nauðsynleg, aðeins pláss fyrir 15 krakka. 

 

Lesendum er velkomið að senda inn upplýsingar á netfangið snaefridur@akureyri.net viti þeir um fleiri sumarnámskeið sem ekki eru talin upp hér að ofan.