Fara í efni
Mannlíf

Hústökufólk – martröð allra húseigenda

Ýmislegt hefur gengið á hjá hjónunum Snæfríði Ingadóttur og Matthíasi Kristjánssyni sem eru að gera upp hús á norðurhluta Tenerife. Nágrannar héldu til að mynda að þau væru hústökufólk og í óleyfi í eigin húsi!

Akureyri.net hefur áður sagt frá ævintýri Akureyringanna og fylgist áfram með verkinu í vetur.

„Jú, þetta potast hjá okkur,“ sagði Snæfríður þegar Akureyri.net sló á þráðinn til Tenerife og forvitnaðist um gang mála. „Við erum að vinna í gestahúsinu, sem er um 20 fermetra bygging, við ætlum að byrja á því að gera það íbúðarhæft,“ segir Snæfríður.

Auk byggingaframkvæmdanna hafa þau hjónin verið dugleg að heilsa nágrönnunum og reynt að kynnast fólkinu í hverfinu, segir hún, en viðtökurnar hafi verið misgóðar. „Einn nágranninn kom og færði okkur mangó ávexti úr eigin garði, annar vínflösku en svo var einn sem býr hér fyrir ofan okkur sem hélt að við værum hústökufólk. Húsið sem við keyptum hefur staðið autt í nokkur ár og hann hélt hreinlega að við værum að koma okkur fyrir þar í óleyfi. Matthíasi tókst að leiðrétta þann misskilning eftir að þessi umræddi nágranni sigaði hundi á hann að kvöldlagi. Ég held við verðum að mæta með afsalið til hans og súkkulaði frá Íslandi til að ná að sannfæra hann og þvo þennan stimpil endanlega af okkur,“ segir Snæfríður og hlær.

Vinnan við hús þeirra Snæfríðar og Matthíasar á Tenerife potast áfram á spænskum hraða.

Þjófabjór fyrir innbrotsþjófa

„Hústökufólk er í raun martröð allra húseiganda sem eiga eignir sem standa tómar. Þó það sé í raun ólöglegt að yfirtaka eignir annarra þá getur verið mjög erfitt að losna við hústökufólk því það þarf að gerast löglega og það getur verið mjög tímafrekt. Eftir því sem við skiljum þetta rétt þá virðist réttur hústökufólks vera nokkuð sterkur ef það getur sannað búsetu í húsinu í ákveðið langan tíma og þá virðist vera mjög erfitt að reka það í burtu, þannig að þetta er ekkert grín.“

Sjálf segist Snæfríður hafa haft áhyggjur af því áður en þau komu út í haust að einhver hefði komið sér fyrir í húsinu. Þau hjónin keyptu húsið á síðasta ári en það stóð tómt á meðan fjölskyldan var að sinna sínu á Akureyri. „Við auðvitað lokuðum húsinu vel áður en við fórum héðan síðast og reyndum að baktryggja okkur með því að skilja eftir þjófabjór, sem er gamalt húsráð, því margir þjófar láta sér oft áfengi nægja. Það er skemmst frá því að segja að veigarnar voru alveg ósnertar þegar við komum út enda húsið ekki íbúðarhæft og ekkert sérlega kræsilegt fyrir hústökufólk. Þannig að þetta voru alveg óþarfa áhyggjur.“

Með hústökufólk í götunni

„Hins vegar komumst við að því að í götunni okkar býr alvöru hústökufólk. Matthías hafði heilsað og kynnt sig fyrir ósköp venjulegri spænskri konu sem býr í sérkennilegri byggingu sem samsett er úr nokkrum skrifstofugámum. Okkur fannst húsið hennar í raun bara vera frumleg og góð lausn enda lítur þetta húsnæði alls ekki illa út.“ 

Nokkru seinna rakst Matthías hins vegar á eiganda lóðarinnar á vappi í götunni. Sá sagði honum að þessu gámahúsi hefði verið komið fyrir á lóðinni án hans samþykkis. Hann væri ráðþrota hvernig ætti að koma íbúunum á brott sem og húsinu. Þetta kom okkur á óvart, og sló á allar okkar staðalmyndir af hústökufólki því nágrannakonan passar svo sannarlega ekki inn í þær. En við þekkjum svo sem ekki alla söguna, kannski er nágrannakona okkar að leigja þetta gámahús af öðrum í góðri trú? En svona er maður alltaf að læra eitthvað nýtt á nýjum slóðum og sjá heiminn í öðru ljósi. Hlutirnir eru sjaldnast alveg svarthvítir.“

Matthías grefur fyrir nýjum sökklum í gestahúsinu. Ekki er hægt að koma steypubíl að húsinu svo notast þarf við steypuhrærivél, skóflu og hjólbörur.

Alltaf eitthvað óvænt

Aðspurð út í næstu skref í framkvæmdunum svarar Snæfríður því til að framundan sé steypuvinna í gestahúsinu en þar vanti sökkla að hluta. „Við komumst fljótt að því gestahúsið er ekki merkileg bygging. Líklega átti það aldrei að vera neitt annað en áhaldahús en svo er eins og bætt hafi verið við það eftir þörfum. Nú þegar við erum byrjuð að rífa og skoða það betur kemur í ljós að það stendur á veikum grunni svo við ætlum að reyna að steypa undir það þar sem þarf. Reyndar kom í ljós að það er nær ómögulegt að koma vinnuvélum að húsinu eða steypubíl svo við gerum þetta bara með skóflu, hjólbörum og steypuhrærivél. Við bjuggumst alveg við því að það væri eitthvað óvænt í þessari framkvæmd eins og alltaf þegar gömul hús eru annars vegar, svo við leysum þetta einhvern veginn.“

  • Áhugasamir geta fylgst frekar með lífinu hjá þeim hjónum á Tenerife á Instagram story undir @ohyesyoucan