Fara í efni
Mannlíf

„Hundur og maður eru teymi“

Þorgils Guðmundsson og annar hundurinn sem hann æfði með um síðustu helgi. Ljósmynd: Skapti Hallgrím…
Þorgils Guðmundsson og annar hundurinn sem hann æfði með um síðustu helgi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Norðurhópur leitarhunda Landsbjargar æfði á Svalbarðseyri síðasta laugardag. Eins og nafnið gefur til kynna þjálfar hópurinn sig í að leita og bjarga og að þessu sinni æfðu níu teymi hunda og manna snjóflóðaleit. 

Þorgils Guðmundsson, formaður björgunarsveitarinnar Týs á Svalbarðsströnd sagði í samtali við Akureyri.net að æfingar sem þessar séu haldnar nokkrum sinnum yfir veturinn. „Í snjóflóðunum er þessi tími janúar, febrúar og mars; fer eftir snjó. Ef það er snjór fyrir áramót þá reynum við að taka æfingar þá líka“, segir Þorgils sem á tvo leitarhunda.

Grunnþjálfun hvolpa

Hvenær er best að byrja þjálfun leitarhunda – og hvernig?

Hægt er að byrja grunnþjálfun þegar hvolpar er 4-5 mánaða gamlir, segir Þorgils. „Þá er þeim sýnt um hvað leikurinn snýst. Það sem við gerum fyrst er að það er ákveðið dót sem hundurinn er spenntur fyrir, en leikur sér bara með þegar hann er í þjálfun. Maðurinn felur sig ofan í holu, hundurinn sér það, og svo er hundinum sleppt til að ná í dótið. Í augum hundsins er þjálfunin leikur“, segir Þorgils.

Frá byrjanda til fullnuma leitarhunds

Ef allt gengur vel tekur þjálfun leitarhunds þrjú ár. Á þeim tíma þreyja þeir þrjú próf: C, B og A. Fyrsta próf, C-próf, geta hvolpar tekið 5-8 mánaða gamlir.

Ef hundur stenst C-próf er hann orðinn gjaldgengur í áframhaldandi þjálfun. Í B-prófi er hundinum úthlutað mun minna leitarsvæði en hann fær svo í A-prófi, en er þá kominn á útkallslista. Þegar hundur hefur staðist A-próf er hann fullnuma en þarf samt sem áður þjálfun og fer í endurmat annað hvert ár. Nú í mars verður slík úttekt hjá Leitarhundum sem verður haldin á Vestfjörðum að þessu sinni. Sem áður segir, á Þorgils tvo leitarhunda. Sá eldri er A-hundur sem fór í endurmat í fyrra en yngri hundurinn, ásamt teymisfélaga sínum, ætla að taka B-próf í ár. Hundur og maður eru teymi, segir Þorgils, og þeir taka prófið saman.

Þorgils og ferfættur félagi hans hafa nokkrum sinnum farið í útkall en þó ekki í snjóflóð. En þeir hafa tekið þátt í innanbæjar- og víðavangsleit

En hvað kostar að fóðra og þjálfa leitarhund?

„Við Leitarhundar Landsbjargar erum á fóðurstyrk frá Belcando í Þýskalandi og útkallshundar fá frían mat. Svo kostnaður er ekki svo mikill – nema tíminn“, segir Þorgils að lokum.

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson