Fara í efni
Mannlíf

Hugmynd um mathöll í Glerárgötu 28

Glerárgata 28, mynd af ja.is

Eigandi jarðhæðar hússins Glerárgötu 28 hefur sótt um leyfi fyrir mathöll á hæðinni. Samþykkt var í skipulagsráði Akureyrar í síðustu viku að setja áformin í grenndarkynningu þegar fullnægjandi gögn hafa borist.

Eigandi húsnæðisins, Vilhelm Patrick Bernhöft, sagði við Akureyri.net á dögunum að málið væri á algjöru frumstigi. Ásprent - Stíll var lengi með starfsemi á allri jarðhæðinni en eftir að fyrirtækið varð gjaldþrota í fyrra keypti Prentmet - Oddi reksturinn og leigir hluta hæðarinnar. Um 1.000 fermetrar eru ónotaðir sem stendur. Vilhelm kvaðst ekki hafa í bígerð sjálfur að koma á fót mathöll heldur hafi hann fengið fyrirspurn frá öðrum, og fyrsta skrefið sé því að kanna hvort leyfi fáist fyrir slíkum rekstri. Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir svæðið.

Engin mathöll er starfandi á Akureyri en nokkrar í Reykjavík og hafa notið mikilla vinsælda. Í slíkri höll eru starfræktir nokkrir veitingastaðir undir sama þaki.