Fara í efni
Mannlíf

Hrífandi fegurð á vaktaskiptum

Ljósmynd: Daníel Starrason.
Fannfergi er ekki það eina sem snerti Akureyringa undanfarið, þótt það hafi vissulega verið áberandi í umræðunni. Snjó kyngdi niður, snjór hamlaði umferð, snjó var ýtt af götum og fluttur á brott. Snjó kyngdi niður, snjór hamlaði ... Þannig endurtók sagan sig dag eftir dag. Allir upplifðu snjóinn, sumir bölvuðu honum, aðrir dásömuðu.
 
Þessa sömu daga, eins og alla aðra, komu þau og fóru, Sól og Máni, án þess að hafa hátt um það, stundum fer lítið fyrir þeim eða jafnvel ekkert en allir vita að þau eru þarna. Að morgni fimmtudags var fegurðin svo hrífandi að vonandi gáfu sem flestir þeim systkinum gaum. Daníel Starrason, sá snjalli ljósmyndari og vinur Akureyri.net, mundaði tækin sín um tíuleytið þegar Máni virtist ætla að tylla sér eða jafnvel leggjast til hvílu á fjallstoppi, sem þegar var baðaður hlýjum og litríkum geislum Sólar. Þau verða vart tignarlegri, vaktaskiptin.
 
Daníel Starrason heldur úti Facebook síðunni Augnablik á Akureyri, þar sem finna má marga gullmola og er vitaskuld einnig með eigin heimasíðu. Smelltu hér til að sjá heimasíðu Daníels.