Fara í efni
Mannlíf

Hreyfing af fjölbreyttum toga – til að hreyfa sig

„Hreyfing þarf ekki að fylgja áætlun til að vera ánægjuleg og sjálfbær. Hún getur verið hreyfingarinnar vegna og af fjölbreyttum toga, þar sem þú upplifir tengingu við líkamann og hefur ánægju af því sem þú ert að gera. Á bak við þessa nálgun liggur einföld staðreynd. Við erum gerð til þess að hreyfast yfir daginn, alla daga.“

Þetta segir Guðrún Arngrímsdóttir í heilsupistli sem akureyri.net birtir í dag. Þær Hrafnhildur Reykjalín Vigfúsdóttir, eigendur Sjálfsræktar heilsumiðstöðvar á Akureyri, skrifa pistla sem birtast annan hvern þriðjudag.

Guðrún skrifar meðal annars:

Góð spurning að spyrja sig er: „Hvað geri ég í mínu daglega lífi og hvernig getur hreyfing stutt það?“ Dagleg hreyfing á að styðja lífið sem þú lifir og endurspegla hvernig þú vilt eldast. Viltu geta klætt þig í sokkana standandi fram eftir öllum aldri? Borið þunga poka? Setið á gólfinu með börnum eða barnabörnum og staðið upp án vandræða? Haldið jafnvægi? Beygt þig og teygt, undið upp á þig, ýtt og dregið?

Þetta eru hreyfingar og færni daglegs lífs sem við viljum klárlega búa yfir og viðhalda og það er alls ekki flókið að gera það. Svo lengi sem þú hættir ekki að hreyfa líkamann þá geturðu viðhaldið þessari færni. Það er heldur aldrei of seint að byrja.