Fara í efni
Mannlíf

Hópur sunnan undir húsvegg á Munkaþverá

Albúm 123-9 frá Minjasafninu á Akureyri

Þessi stórskemmtilega mynd frá Minjasafninu á Akureyri birtist á föstudaginn, sem Gamla myndin hér á Akureyri.net. Áhugafólk í hópnum Gamlar ljósmyndir á Facebook var ekki lengi að taka við sér, strax var bent á að hún gæti verið tekin sunnan undir vegg á Munkaþverá í Eyjafirði og sú reyndist raunin.

Eftir að útvarpskonan Una Margrét Jónsdóttir sýndi móður sinni, Kristínu Jónsdóttur myndlistarkonu frá Munkaþverá, myndina ritaði Una pistil á áðurnefnda Facebook síðu, þar sem koma fram nöfn margra á myndinni.

Una Margrét skrifar: 

„Ég er nú búin að sýna Kristínu Jónsdóttur móður minni (Gígí) myndina. Það er rétt að hún er tekin á Munkaþverá sunnan undir húsveggnum. Samkvæmt áliti mömmu eru þessir á myndinni, talið frá vinstri. Aftari röð: Ingólfur Pálsson frá Uppsölum, óþekktur, Jónas Þorleifsson frá Grýtu (eða bróðir hans), svo Jónas Halldórsson frá Rifkelsstöðum. Drengurinn er líklega Jón Stefánsson á Munkaþverá, þá kemur óþekktur maður, svo Garðar Halldórsson frá Rifkelsstöðum og síðast Marinó Jónsson frá Uppsölum. (Fyrst var mamma reyndar á því að sá ysti til hægri væri Þorbjörn eða Sigurjón frá Borgarhóli, en hallaðist svo að því að það væri Marinó.) Þá kemur fremri röð frá vinstri: Líklega er Stefanía frá Steinsstöðum í Öxnadal yst t.v. þær næstu tvær álítur mamma að séu frænkur okkar, tvíburarnir Laufey og Sigríður Stefánsdætur, en er þó ekki alveg viss. Þá kemur Sigríður Halldórsdóttir frá Rifkelsstöðum, svo óþekktur maður og þrjár óþekktar konur, en ystur til hægri er, samkvæmt áliti mömmu, Valtýr Jónsson frá Borgarhóli. Allra fremst sjást höfuð tveggja ungra pilta og heldur mamma að sá sem er til vinstri geti verið Jóhann Rist. Þess skal líka getið að mömmu finnst líka koma til greina að stúlkan með flétturnar, þriðja frá hægri, sé Sigríður Stefánsdóttir, en þá getur hún náttúrlega ekki verið þriðja frá vinstri.“

Ef einhverjir kunna deili á fleira fólki á myndinni, væri gaman að fá þær upplýsingar sendar, annað hvort á netfangið skapti@akureyri.net eða að viðkomandi sendi beint til Harðar Geirssonar á Minjasafnið - hann er með netfangið hg@minjasafnid.is

Smellið hér til að sjá allar gömlu myndirnar sem Akureyri.net hefur birt.