Hönnun CRANZ til sýnis hjá 66°Norður

Gaman að vinna úr skemmtilegu efni
Að sögn Helga Hrafns hafði 66°Norður samband við þá af fyrra bragði í vetur og bauð þeim nokkrar gallaðar flíkur og efni sem til féll við framleiðsluna hjá þeim. Strákarnir eru þekktir fyrir að endurhanna gamlar flíkur og því var sendingin frá 66°Norður kærkomin. Í apríl héldu þeir tískusýningu í Hofi þar sem þeir sýndu afraksturinn en svo bauðst þeim einnig að sýna útkomuna í verslun 66°Norður á Akureyri og þar er nú uppi slá með flíkunum þeirra. Á slánni má m.a. finna eina alveg brjálaða peysu sem er full af áhugaverðum smáatriðum. Helgi segir að þeir hafi verið lengi að búa þessa peysu til en það hafi verið erfitt að hætta því efnið sem þeir fengu frá 66°Norður hafi verið svo skemmtilegt. Segir hann að fram til þessa hafi þeir svo til eingöngu sótt efnivið í hönnun sína í Rauða krossinn á Akureyri en það hefur verið lítið um ferðir þangað síðustu mánuði þar sem þeir eru enn að vinna úr efninu frá 66°Norður.

Kjartan og Helgi, strákarnir á bak við CRANZ fatamerkið. Myndin er tekin á tískusýningu í Hofi í tengslum við barnamenningarhátíðina í apríl. Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Aðspurður hvernig það gangi segir Helgi að þeir séu að vinna í heimasíðu þessa dagana þar sem þeir ætla að selja eitthvað af hönnun sinni og vonandi muni það hjálpa þeim. Helgi Hrafn vill engu lofa varðandi það hvort brjálaða 66 Norður peysan verði til sölu á nýju heimasíðunni en segir að það verði eitthvað flott.

CRANZ stákarnir sauma föt sem flest eru endurunnin úr gömlu efnum og flíkum. Það hljóp á snærið hjá þeim þegar 66°Norður bauð þeim efni að vinna úr. Útkomuna má nú sjá á fataslá sem er uppi í 66°Norður við Skipagötu.

Angantýr, starfsmaður í 66°Norður við Skipagötu, sýnir hér bakhliðina á brjálaðri peysu sem strákarnir í CRANZ unnu upp úr afgöngum frá 66°Norður.