Fara í efni
Mannlíf

Hólmar: Heiðra skaltu föður þinn og móður!

Hólmar Erlu Svansson og móðir hans, Erla Hólmsteinsdóttir. Ljósmynd Skapti Hallgrímsson.

Hólmar, sonur Erlu Hólmsteinsdóttur, skrifstofumanns og húsmóður, og Svans Eiríkssonar, arkitekts, hefur verið kenndur til föður síns alla tíð eins og algengast er. Hólmar Svansson er kunnur maður í atvinnulífinu norðanlands, hefur gegnt ýmsum störfum gegnum tíðina og verið framkvæmdastjóri Háskólans á Akureyri síðan 2018. Nú gegnir hins vegar Hólmar Erlu Svansson því starfi þótt kennitalan sé sú sama.

Hólmar, sem varð 55 ára á laugardaginn, fékk staðfestingu Þjóðskrár nýverið að samþykkt hefði verið beiðni hans um að kenna sig einnig til móður sinnar. „Ef fólk kenndi sig til móður var það oftast vegna einhverra vandamála en nú orðið er það frekar heiðursmál,“ segir Hólmar. „Umræða um jafnrétti hefur verið mikil í mörg ár, miklum árangri vissulega verið náð en því má ekki gleyma að enn bera mæður meiri ábyrgð á heimili og uppeldi í langflestum tilfellum. Vissulega eru undantekningar á því, en heilt yfir hallar á konur í þessum efnum. Maður sér það til dæmis í atvinnuþátttöku og því að stundum er talað um að þær séu að fara í hina vinnuna þegar þær fara heim að loknum vinnudegi!“

Stoltur af mömmu

Hann hugleiddi breytinguna m.a. vegna umræðu um jafnréttismál undangengin ár. „Þegar ég var að alast upp héldu mæður meira og minna í alla þræði á heimilum og færðu oft fórnir vinnulega til að láta hlutina ganga upp. Við eigum þeim því mikið að þakka en ástæða þess að ég ákvað að gera þetta er að hluta til á persónulegri nótum; mamma hefur átt við heilsubrest að etja síðustu ár, hefur barist eins og hetja og ég hef fylgst stoltur með dugnaði hennar og einurð við að koma sér til heilsu á ný,“ segir Hólmar.

Breytingin var einföld í framkvæmd. „Það er hægt að gera þetta á netinu. Hefði ég skipt um kenninafn og orðið Hólmar Erluson hefði það verið ókeypis en greiða þarf svolítið skráningargjald þegar kenninafni er bætt við. Ég lét verða af þessu þegar við mamma sátum saman fyrir framan sjónvarpið eitt kvöldið, hún hélt ég væri að fíflast en varð hálf vandræðaleg þegar hún áttaði sig á því hvað var um að vera.“

Hólmar segist hafa fengið góð viðbrögð við uppátækinu. „Ég sagði frá þessu á Facebook, einhverjir gamlir afturhaldskarlar eru ósáttir við að verið sé að rugla í aldagamalli hefð, en yfirgnæfandi fjöldi fólks er mjög ánægður.“

Enn sjaldgæft

Notkun nafns móður sem kenninafns hefur aukist upp á síðkastið, sérstaklega hjá konum á aldrinum 18 til 35 ára. Er þó enn mun sjaldgæfari en notkun föðurnafns. Til dæmis er minna en hálft prósent fólks eldri en 65 ára sem hefur þann háttinn á.