Hlaupahópurinn HHHC fyrir utan Hamar, félagsheimili Þórs, fljótlega eftir komuna til Akureyrar í gær. Hópurinn gisti í Hamri í nótt. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Hlaupahópurinn HHHC kom til Akureyrar í gær, gisti hér í nótt og leggur í hann í morgunsárið. Ferðinni er heitið hlaupandi suður yfir Kjöl. Hér er um sérlega metnaðarfullt góðgerðarverkefni að ræða og endurtekið efni frá 2023, en þó með annarri hlaupaleið. Hópurinn hyggst hlaupa sex maraþonhlaup á sex dögum frá Akureyri til Reykjavíkur, um Kjalveg.
Meginmarkmiðið með þessu verkefni er að styrkja Kraft og vilja þeir tileinka hlaupið öllum ungum fjölskyldum sem hafa þurft að glíma við krabbamein, að því er fram kemur á Facebook-síðu hópsins. „Við vitum að þessar fjölskyldur njóta ómetanlegs stuðnings og styrks í gegnum starf Krafts. Við viljum gera okkar til að fjölskyldurnar eigi kost á enn meiri stuðningi,“ segja hlaupagarparnir enn fremur. Hlaup hvers dags verður tileinkað einum einstaklingi sem notið hefur góðs af starfi Krafts. „Sögurnar þeirra eru ólíkar en áhrifamiklar og við kynnum þær nánar þegar hlaupið hefst.“
Eins og gistiferð í 5. flokki
Hlaupagarparnir voru hinir hressustu þegar þeir renndu í hlað við Hamar, félagsheimili Þórs, þar sem þessir miðaldra karlmenn upplifa það aftur að vera eins og í keppnisferð með 5. flokki, höfðu með sér dýnur, vindsængur, pumpur og nesti og drifu sig í að finna hver sinn stað til að halla höfðinu í nótt áður en þeir halda ótrauðir af stað í bítið. Einn þeirra setti saman stutt myndband um þessa upplifun og setti inn á Facebook-síðuna í gærkvöld.
Hlaupararnir áætla að koma til Reykjavíkur föstudaginn 22. ágúst. Leiðin samsvarar fimm maraþonhlaupum á fimm dögum fyrir hvern hlaupara í hópnum. Sjötta maraþonið verður svo sjálft Reykjavíkurmaraþonið laugardaginn 23. ágúst. Þann dag tileinka þeir hlaupið öllum ungum fjölskyldum sem hafa þurft að glíma við krabbamein.
Von, trú og viljastyrkur
Hópurinn, sem samanstendur af 20 miðaldra karlmönnum, hefur notið stuðnings og styrkja víða að og fengið margvísleg framlög til að ráða við þessi sex maraþon á sex dögum. „Það þarf von, trú og viljastyrk í glímunni við krabbamein og hið sama má segja um langhlaup,“ segja þeir, en með þrautseigju og þolinmæði söfnuðu þeir átta milljónum króna fyrir Kraft sumarið 2023 þegar þeir hlupu sams konar hlaup, en eftir öðrum leiðum.
Akureyri.net fjallaði um þennan óvenjulega, en skemmtilega og snyrtilega hlaupahóp þegar þeir lögðu í hann fyrir tveimur árum.
Snyrtimennska hlauparanna vekur svo líka sérstaka athygli fyrir utan sjálft málefnið og afrekið að hlaupa þessa vegalengd því þeir verða ekki klæddir í neinn venjulegan hlaupafatnað heldur jakkaföt frá Boss, sem er einn af samstarfsaðilum verkefnisins. HHHC er hraðasti og um leið fallegasti hlaupahópur landsins, ef þeir eru sjálfir spurðir.
Mögulegt er að styrkja verkefni hópsins í gegnum hlaupastyrksvef Reykjavíkurmaraþonsins. Smellið á myndina hér að neðan til að styrkja.
Svona var staðan á sunnudagskvöldi þegar fréttin var skrifuð. Markmiðið er tíu milljónir og nú þegar hafa safnast tæpar 2,2 milljónir króna. Skjáskot af hlaupastyrkur.is.