Fara í efni
Mannlíf

Heyrið undurfagran leik Alexanders Smára

Alexander leikur Bach í Hofi. Skjáskot úr upptöku Gunnars Bjarka Hallgrímssonar.
Alexander leikur Bach í Hofi. Skjáskot úr upptöku Gunnars Bjarka Hallgrímssonar.

„Myndband sem hinn hæfileikaríki Gunnar Bjarki Hallgrímsson tók upp af mér að spila smá Bach,“ skrifaði Alexender Smári Kristjánsson Edelstein, píanistinn stórefnilegi, á Facebook síðu sinni, þar sem hann birti þessa upptöku úr Hofi 20. desember. Ekki er ofsagt að myndbandið sé fallegt og vel unnið, ekki frekar en að hæfileikarnir í herberginu einskorðuðust ekki við myndatökumanninn. Alexander Smári er stórkostlegt efni, ein af vonarstjörnum Íslands. Hann lauk framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum á Akureyri 2017 og er nú við nám í Listaháskóla Íslands. 

Á upptöku Gunnars Bjarka leikur Alexender Smári prelúdíu í B-moll eftir Bach.

Hæfileikar Alexanders Smára komu snemma í ljós og ungur skaraði hann fram úr. Er hann þó með báða fætur á jörðinni. Sá sem þetta skrifar stenst ekki þá freistingu að birta hér stuttan bút úr spjalli þeirra Alexenders sem birtist í Morgunblaðinu í janúar 2018. 

_ _ _ _

Nafnið Edelstein gefur til kynna að músík sé í blóðinu. Er ekki óhætt að halda því fram?

„Jú, ætli það ekki. Heinz langafi minn, sem flúði hingað til lands ásamt fjölskyldu sinni undan nasismanum fyrir stríð, var sellóleikari, Stefán afi minn er píanisti og pabbi, Kristján, er gítaristi. Ég byrjaði 5 ára að læra á selló, prófaði svo gítar en snéri mér að píanóinu 11 ára.“

Af hverju varð píanóið fyrir valinu?

„Þegar ég fór að spila á píanó vissi ég eiginlega strax að ég vildi halda mig við það. Það heillaði mig einhvern veginn mest af öllu.“

Ég rakst á mikið hrós um tónleikana þína í vikunni. Jón Hlöðver Áskelsson, tónskáld og fyrrverandi skólastjóri Tónlistarskólans á Akureyri, sagðist á Facebook nánast hafa staðið á öndinni, svo andríkur og hrífandi hefði píanóleikur þinn verið ...

„Já, er það? Ég hef yfirleitt fengið ágæt viðbrögð þegar ég spila og gekk ágætlega á tónleikunum í Hofi.“

Þú ert aldeilis hógvær.

„Já!“

_ _ _ _

Smellið hér til að hlýða á Alexander