Fara í efni
Mannlíf

Heppinn þrátt fyrir miklar hremmingar

Baldvin Zophoníasson kvikmyndaleikstjóri. Skjáskot úr þætti kvöldsins af vef RÚV.

„Kvikmyndagerðarmaðurinn Baldvin Zophoníasson, betur þekktur sem Baldvin Z, var 12 ára þegar hann missti móður sína úr brjóstakrabbameini. Hann ólst jafnframt upp við flókið fjölskyldumynstur vegna misnotkunarmáls sem sundraði fjölskyldunni.“

Svo segir á vef Ríkissjónvarpsins þar sem kynntur er þátturinn Okkar á milli, sem er á dagskrá RÚV í kvöld. Akureyringurinn Baldvin Z ræðir þar við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur, um þessa erfiðu lífsreynslu og sköpunarkraftinn sem kom honum í gegnum þetta.

„Mér finnst eins og ég sé ótrúlega heppinn, þrátt fyrir að það hafi verið miklar og stórar hremmingar í kringum mig þá hef ég kosið að líta á það sem styrk fyrir mig,“ er haft eftir Baldvin á vef RÚV.

Hann segir að á sínum tíma hafi það verið siðferðismál sem skipti sköpum, hvort taka ætti brjóstið eða ekki. „Það var ekki eins sjálfsagt á þessum tíma að kippa brjóstinu í burtu,“ segir Baldvin og á endanum var ákveðið að taka það ekki. „Það er mjög erfiður biti að kyngja.“

Nauðsynlegt samtal

Áður en móðir Baldvins lést áttu þau mæðgin langt spjall, segir á vef RÚV, þar sem hún sagði honum fjölskyldusöguna og gaf honum góð heilráð. „Þetta er eitthvað sem foreldrar eiga að gera fyrir börnin sín, þó svo að þau séu ekki deyjandi manneskjur,“ segir Baldvin. „Ég fékk þarna nokkra daga þar sem við sátum og tókum samtalið, þar sem hún lagði fyrir mig lífsreglurnar og sagði mér frá öllu sem ég þurfti að vita. Í þessu samtali áttaði ég mig á hver fjölskyldan mín var, ég fór að skilja hlutina betur.“

Þátturinn Okkar á milli er á dagskrá klukkan 20.05 í kvöld. Vefur RÚV