Fara í efni
Mannlíf

Helgi magri kemur í bæinn

Landnámsmaðurinn Helgi magri er genginn aftur ef svo má segja því Matarstígur, sem við hann er kenndur, er orðinn að veruleika og frá og með næstu viku geta Akureyringar fengið matvæli, sem þeir panta af umræddum stíg í Eyjafjarðarsveit, afhent í heimabænum. 

Margvísleg matvælaframleiðsla fer fram í Eyjafjarðarsveit og í boði verður grænmeti af ýmsu tagi, ís, kartöflur, egg, nauta-, lamba- og svínakjöt, meðhöndlað á ýmsan máta.

„Við höfum unnið að undirbúningi síðan 2015 í þeim tilgangi að gera Eyjafjarðarsveit að mataráfangastað í heimsklassa – sem segja má að sé hógvært markmið!“ segir Karl Jónsson, verkefnastjóri Matarstígs Helga magra við Akureyri.net. „Það gerum við með því að sameina bændur, ferðaþjónustuna og veitingaðila í eina sæng. Við stofnuðu Matarstíginn í mars og vorum með ákveðið prógram í sumar, Covid setti reyndar ýmislegt úr skorðum en það breytti því ekki við höfum unnið mikið á bak við tjöldin, þar á meðal undirbúið það sem við köllum vistvæna dreifileið. Við prufukeyrðum hana í sumar á milli framleiðenda og veitingamanna í Eyjafjarðarsveit en nú er komið að því að afhenda matvæli á Akureyri.“

Vistvæna dreifileiðin felst í því að draga sem allra mest úr kolefnisspori og pöntunum er því ekið úr sveitinni til Akureyrar í rafbíl. Hægt er að skoða það sem er í boði, og panta, á heimasíðu Matarstígs Helga magra og fyrsta afhending verður næsta fimmtudag. Afhending fer fram alla fimmtudaga frá klukkan 17 til 18 á opna svæðinu sunnan við gömlu umferðarmiðstöðina við Hafnarstræti. Einhverjir heimamenn myndu segja norðaustan við Hótel Akureyri, enn aðrir austan við gömlu Dynheima. Menn ráða því, en allir ættu að rata.

Nánari upplýsingar hér