Fara í efni
Mannlíf

„Held að öllum sé hollt að breyta til“

Guðrún hefur kennt líkamsrækt og einkaþjálfun í 30 ár. Þá er hún líka lærður grunnskólakennari og var framkvæmdastjóri í 15 ár. Í haust spreytir hún sig í fararstjórar hlutverkinu í heilsuferð til Tenerife á vegum Úrvals Útsýnar.

Einn vinsælasti líkamsræktarkennari Akureyrar, Guðrún Gísladóttir, tók sér frí frá kennslu og fluttist tímabundið til Tenerife fyrir hálfu ári síðan. Akureyri.net sló á þráðinn til hennar til að forvitnast um lífið og tilveruna í sólinni og ekki síst hreyfiferð til Tenerife sem hún mun stýra í haust.

Guðrún eða Gugga er Akureyringum að góðu kunn, sem og eiginmaður hennar heitinn, Ágúst H. Guðmundsson, athafnamaður og körfuboltaþjálfari. Hjónin stofnuðu líkamsræktarstöðina Átak heilsurækt árið 2003 sem þau seldu til World Class árið 2018 þegar Ágúst var orðinn veikur af MND sjúkdómnum en Ágúst lést í ársbyrjun 2021, aðeins 53 ára að aldri. „Eftir að Ágúst dó langaði mig til að finna mig aftur og fá smá slökun. Ég hafði verið á kafi í vinnu svo lengi og síðustu fjögur árin áður en Ágúst dó höfðu einkennst af álagi, sorg og kvíða. Þó við höfum vissulega gert ýmislegt skemmtileg á þessum árum þá vissum við hvert stefndi,“ segir Guðrún og heldur áfram. „Ég vildi kúpla mig alveg út og upplifa eitthvað nýtt og ég taldi það best gert erlendis þar sem heima er ég alltaf í kringum fullt af fólki og hefði örugglega bara sökkt mér í vinnu.“

Guðrún stundar fjölbreytta hreyfingu. Í hreyfiferðinni sem hún stýrir í haust er svigrúm fyrir golfhring en annars er það hreyfing, yoga, slökun og göngutúrar sem eru í forgrunni.

Saknar þess að kenna

Hálft ár er nú liðið síðan Guðrún sagði upp starfi sínu sem stöðvarstjóri hjá World Class og hélt til vetrardvalar á Tenerife ásamt yngstu dótturinni, Berglindi Evu sem er 13 ára gömul. „Ég held að það sé öllum hollt að breyta aðeins til, maður þarf ekki að hafa lent í áföllum til þess. Fólk miklar hins vegar svona breytingar oft fyrir sér, ég heyri það á mörgum í kringum mig, sem langar í álíka tilbreytingu en þorir ekki,“ segir Guðrún.

Sjálf segist Guðrún hafa undirbúið dvölina vel. Hún leigði út heimilið á Hrafnagili og fann sér leiguhúsnæði úti á móti. „Berglind fór fyrst í alþjóðlegan skóla en er núna í heimaskóla og gengur henni mjög vel. Ef fólk getur unnið í fjarvinnu að heiman þá er þetta ekki mikið mál. Fólk ætlar svo oft að gera ýmsa hluti þegar það verður gamalt en svo verður maður kannski ekkert eldri. Það var líka þess vegna sem ég ákvað að gera þetta strax, ég vildi ekki vera að bíða.“

Berglind Eva, dóttir Guðrúnar, er 13 ára gömul en þær mæðgur ákváðu að breyta til í vetur og búa á Tenerife.

Dvölin úti var alltaf hugsuð sem tímabundin enda Guðrún mikill Akureyringur og eru þær mæðgur væntanlegar aftur heim í sumar. „Áður en ég kom hingað hafði ég lengst dvalið 23 daga í burtu frá Akureyri, svo já ég er mikill Akureyringur. Jafn mikið og ég hlakkaði til þess að fara hingað út hlakka ég líka til þess að koma aftur heim, því þar er fólkið mitt, vinir og fjölskylda. Ég sakna ekki veðursins heima en ég finn ég sakna þess alveg svakalega að kenna. Ég fór í stutta heimsókn til Íslands um jólin og kenndi þá tvo tíma í World Class og ég fékk alveg gæsahús við það, ég fann þá mjög sterkt hve kennslan togar enn sterkt í mig.“

Lærir spænsku og yoga

Aðspurð hvernig dagarnir líði hjá henni á Tenerife þá er útivera og hreyfing ofarlega á blaði. Þá er hún til staðar fyrir dótturina og aðstoðar hana við námið. Meginmarkmiðið er þó að þær báðar njóti tilverunnar. Guðrún segir að þrátt fyrir að hún hafi reglulega heimsótt Tenerife undanfarin 10 ár hafi hún aldrei ferðast neitt um eyjuna fyrr en núna. Hún er því að kynnast eyjunni á allt annan hátt en áður. „Dagarnir fara í það að vinna í sjálfri mér og upplifa nýja hluti. Ég hef verið í spænskunámi sem mér finnst mjög skemmtilegt. Ég er ófeimin við að reyna að tala og spreyta mig þó hlutirnir komi ekki alltaf rétt út úr mér, en það skiptir miklu máli að reyna. Þá er ég líka í yin yoga námi hjá spænskum kennara sem kennir frá Balí,“ segir Guðrún en áður hefur hún lokið námi í yoga nidra. Spurð að því hvort hún hafi fengið það sem hún sóttist eftir út úr dvölinni svarar hún því játandi. Tíminn úti hafi verið mjög góður og einmitt það sem hún þurfti á að halda til að hlaða batteríin og núllstilla sig. „Ég fer sátt heim í sumar og byrja þar á ákveðnum núllpunkti, það er allt opið . Mér finnst dásamlegt að kenna en ég finn líka að ég er allt í einu farin að skoða atvinnuauglýsingarnar með allt öðrum augum og er opin fyrir mörgu.“

„Eftir að Ágúst dó langaði mig til að finna mig aftur og fá smá slökun. Ég hafði verið á kafi í vinnu svo lengi og síðustu fjögur árin áður en Ágúst dó höfðu einkennst af álagi, sorg og kvíða,“ segir Guðrún sem valdi Tenerife til að hlaða batteríin og upplifa nýja hluti.

Spreytir sig í fararstjórahlutverkinu

Nýtt verkefni er nú þegar komið inn á borð Guðrúnar því í september ætlar hún að leiða hóp í heilsuferð til Tenerife á vegum Úrvals Útsýnar. „Ferðin mun einkennast af góðri hreyfingu, yoga, slökun, göngutúrum og góðum mat í dásamlegu umhverfi á Costa Adeje. Þetta er svona heilsuferð eins og ég myndi sjálf vilja fara í,“ segir Guðrún. Á hverjum degi verður boðið upp á fjölbreyttar morgunæfingar í hótelgarðinum. Þá verður einnig boðið upp á göngu/hlaupaæfingar og þeir sem hafa áhuga á golfi geta tvinnað golfhring inn í prógrammið.

„Það er náttúrlega bara yndislegt að vera hér úti í sólinni að hreyfa sig. Æfingarnar sem ég mun bjóða upp á henta öllum, sama á hvaða getustigi þeir eru. Allir munu fá sitt út úr þeim. Þá er heldur engin skylda að mæta í allt. T.d ef par kemur saman í ferðina og er ekki á sama stað varðandi hreyfiþörf.“ Þá verður einnig boðið upp á dagsferð til nágrannaeyjunnar Gomera sem Guðrún er mjög hrifin af. „Mér finnst eyjan æðisleg, ekki síst golfvöllurinn þar. Þú ert keyrður upp á fyrstu braut og spilar þig svo niður að 18. holu,“ segir Guðrún sem er spennt fyrir þessari nýju áskorun en í ljós kemur að það hefur verið leyndur draumur hjá henni að máta sig í fararstjórahlutverkið. Og hver veit nema framhald verði á. „Við skulum fyrst sjá hvort það vilji einhver koma í þessa ferð í haust. Ég er auðvitað í og með að vona að einhverjir af mínum gömlu nemendum hoppi á þetta tækifæri og vilji koma hingað út og hreyfa sig með mér. Ég lofa fjölbreyttri hreyfingu og skemmtilegri samveru.“