Fara í efni
Mannlíf

„Heilmikil nostalgía“ í Hofi um miðjan apríl

Grétar Örvarsson blæs til tónleika í Hofi laugardagskvöldið 15. apríl undir heitinu Sunnanvindur - Eftirlætislög Íslendinga.

„Tónleikarnir urðu til upp úr tónleikum sem ég hélt til minningar og heiðurs föður mínum, Örvari Kristjánssyni. Pabbi var einn af ástsælustu harmónikkuleikurum þjóðarinnar og átti sextíu ára tónlistarferil að baki þegar hann lést árið 2014“, segir Grétar. „Þessir tónleikar verða þó með öðru sniði. Fluttar verða sígildar dægurlagaperlur, þ.e. lög sem hafa flust á milli kynslóða og mætti með sanni kalla eftirlætislög Íslendinga.“

Á tónleikunum verða flutt lög eins og Góða ferð, María Ísabel, Segðu ekki nei, Litla sæta ljúfan góða, Því ertu svona uppstökk, Ég er kominn heim, Vegir liggja til allra átta, Ást, og Hvítur stormsveipur. „Einnig verða flutt nokkur af vinsælustu lögum pabba eins og Sunnanvindur og Við förum bara fetið,“ segir hann. „Þá hef ég alla tíð haldið mikið upp á lögin sem Hljómsveit Ingimars Eydal og Sextett Ólafs Gauks fluttu. Við ætlum að flytja nokkur af þeim þekktustu í upprunalegum útsetningum. Það má segja að þessir tónleikar séu heilmikil nostalgía fyrir þá sem hafa yndi af tónlist af þessu tagi.“

Á tónleikunum í Hofi verður úrvalshópur tónlistarfólks. Söngvarar auk Grétars verða þau Ragnheiður Gröndal og Karl Örvarsson bróðir hans. „Kalli er ekki bara þekktur söngvari heldur orðin landsfræg eftirherma og viðbúið að nokkrir landsfrægir karakterar fylgi honum norður. Þá hef ég beðið Kalla um að flytja valin atriði af plötunni Spaug 73, en þá plötu eignaðist hann sem lítill strákur og lærði hana utan að í heild sinni! Þetta verður sem sagt blanda af tónlist og gríni á milli laga“, segir Grétar.

Hljómsveitina skipa Þórir Úlfarsson píanóleikari, Pétur Valgarð Pétursson gítarleikari, Haukur Gröndal saxófón- og klarinettuleikari, Eiður Arnarsson bassaleikari og Sigfús Óttarsson trommuleikari. Þá mun Húsvíkingurinn Ásta Soffía Þorgeirsdóttir leika á harmónikku, en Ásta er nýflutt aftur heim til Íslands eftir margra ára tónlistarnám í Noregi og Þýskalandi.

Miðasalan er á mak.is og í miðasölu Hofs. Boðið er upp á 10% afslátt af miðaverði fyrir eldri borgara og hópa.