Heillandi kynslóðasaga og þjóðtrú í bland
AF BÓKUM – 60
Í dag skrifar Hrönn Soffíu Björgvinsdóttir_ _ _
Ein af bókunum sem ég kolféll fyrir í nýafstöðnu jólabókaflóði er Huldukonan eftir Fríðu Ísberg.
Sagan fylgir Lohr kaupmannsættinni sem er mikið kvennaveldi. Aðeins einn drengur, hann Sigvaldi, hefur fæðst í síðustu fjóra ættliði og segja má að hann sé augasteinn kvennanna í fjölskyldunni, myndarlegur og vel gefinn sem hann er. Það verður konunum því mikið áfall þegar hann ákveður að gerast einsetumaður í afskekktum firði í stað þess að stofna fjölskyldu. Einn daginn birtist hann þó með nýfætt ungabarn á arminum og harðneitar að gefa upp hver er móðir barnsins. Konurnar einsetja sér að komast að því hver þessi huldukona er og um leið fáum við að skyggnast aftur í sögu formæðra Sigvalda og frænkna hans. Konurnar í fjölskyldunni fyrirferðamiklar í plássinu og miklar skellibjöllur, sumum íbúum til gleði en öðrum til ama.
Sagan er að mörgu leyti ástaróður til sveita og sjávarplássa á síðustu öld. Það er dásamlegt að fylgjast með samfélagsbreytingunum frá því fjölskyldan lætur reisa stærsta hús byggðarinnar þar sem danska er töluð innanhúss, og fram á miðjan níunda áratuginn með tilheyrandi sveitaböllum og rúntmenningu. Þjóðtrú og munnmælasögur setja líka svip sinn á söguna, fyrir ofan ættaróðalið eru alræmdir hamrar og þau sem leggjast þar til svefns dreymir ýmislegt furðulegt.
Stórbrotinni náttúru Vestfjarða er lýst á svo listilegan hátt að það er eins og lesandinn sé þar staddur. Sagan er bæði falleg og fyndin á köflum, og ég verð að segja að mér var farið að þykja mjög vænt um persónurnar við lok bókar. Ég get vel hugsað mér að endurnýja kynnin við þær síðar og er handviss um að þetta sé bók sem ég muni lesa aftur.