Fara í efni
Mannlíf

Hefna Þórsarar fyrir tapið í Grafarvogi?

Harley Willard skorar þriðja og síðasta mark Þórs í 3:1 sigri á KV í síðasta heimaleik. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór tekur á móti Fjölni í dag í 12. umferð Lengjudeildarinnar í knattspyrnu, næst efstu deildar Íslandsmótsins. Fjölnir er í sjötta sæti með 17 stig en Þór er með 11 stig í 10. sæti.

Fjölnir vann fyrri leik liðanna í sumar í Grafarvoginum, 4:1. Fróðlegt verður að sjá hvernig fer í kvöld því Fjölnir hefur aðeins náð í fjögur stig á útivelli á leiktíðinni en Þórsarar fengið 10 af 11 stigum á heimavelli. Þórsarar töpuðu síðasta leik 4:0 fyrir Fylki á útivelli þrátt fyrir að leika prýðilega en Fjölnir vann Aftureldingu 2:1 á heimavelli í síðustu umferð.

Þórsarinn Harley Willard og Hákon Ingi Jónsson Fjölnismaður eru markahæstu leikmenna liðanna, hafa báðir gert sjö mörk í sumar. Hákon skoraði tvívegis í fyrri leik liðanna og Willard gerði mark Þórs.

Leikurinn hefst klukkan 18.00 á Þórsvellinum - SaltPay vellinum.