Fara í efni
Mannlíf

Handbolti, blak, íshokkí og fótbolti

Það er af nógu að taka fyrir íþróttaáhugafólk síðar í vikunni og um komandi helgi. Karlaliðin í handboltanum leika á fimmtudag og föstudag, keppni í efstu deild Íslandsmótsins í blaki, Unbroken-deildum, hefst á laugardag og leika bæði KA-liðin tvo leiki um helgina. Á laugardag ræðst hvaða lið leika í efri og neðri hluta Bestu deildar kvenna í knattspyrnu. Íshokkíhelgin er með rólegra móti, aðeins ungmennalið SA sem spilar um komandi helgi. KA hefur leik í neðri hluta Bestu deildar karla í knattspyrnu á sunnudag.

FIMMTUDAGUR 18. SEPTEMBER - handbolti

Karlalið KA í handknattleik hóf leiktíðina á sigri á Selfyssingum á útivelli, en tapaði síðan naumlega fyrir Haukum á heimavelli í 2. umferð deildarinnar. KA sækir Aftureldingu heim í Mosfellsbæinn á fimmtudag, en Afturelding hefur unnið báða leikina það sem af er mótinu, gegn HK og Haukum.

  • Olísdeild karla í handknattleik, 3. umferð
    Íþróttamiðstöðin að Varmá kl. 19
    Afturelding - KA

KA og Afturelding gerðu jafntefli í leik liðanna á Akureyri í fyrra, en Afturelding vann 11 marka sigur í Mosfellsbænum. Afturelding endaði í 3. sæti deildarinnar síðastliðinn vetur með 31 stig, en KA í 9. sæti með 15 stig.

FÖSTUDAGUR 19. SEPTEMBER - handbolti

Karlalið Þórs í Olísdeildinni í handbolta byrjaði á sigri í sínum fyrsta leik í deildinni í nokkur ár þegar liðið fékk ÍR í heimsókn norður, en í öðrum leik biðu Þórsarar lægri hlut gegn Íslandsmeisturum Fram eftir að hafa verið einu marki yfir í leikhléi.

  • Olísdeild karla í handknattleik, 3. umferð
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 18:30
    Þór - Valur

Nú er komið að því að taka á móti Val í 3. umferð deildarinnar. Valur endaði í 2. sæti deildarkeppninnar síðastliðið vor, en Þórsarar unnu næstefstu deild, Grill 66 deildina. Valur tapaði fyrir FH í fyrsta leik, en vann síðan Stjörnuna í 2. umferðinni. 

LAUGARDAGUR 20. SEPTEMBER - fótbolti, blak, íshokkí

Undanfarið hefur syrt í álinn hjá liði Þórs/KA í Bestu deild kvenna í knattspyrnu. Liðið er komið í neðri hlutann þegar aðeins ein umferð er eftir fyrir tvískiptingu deildarinnar og þarf ekki aðeins á sigri að halda til að eiga möguleika á að komast upp fyrir strik heldur þarf einnig að treysta á hagstæð úrslit í öðrum leik. 

  • Besta deild kvenna í knattspyrnu, 18. umferð
    Kópavogsvöllur kl. 14
    Breiðablik - Þór/KA

Fyrri leik Þórs/KA og Breiðabliks, sem fram fór í Boganum um miðjan júní, lauk með 2-0 sigri gestanna. Breiðablik vann FHL, 5-1, á útivelli í 17. umferðinni á sunnudag, en Þór/KA tapaði 0-1 heima fyrir Þrótti á föstudagskvöld.

- - -

Keppnistímabilið í blaki er komið af stað og hefst keppni á Íslandsmótinu á laugardag. Um liðna helgi fóru fram leikir um titlana meistarar meistaranna. Karlalið KA vann tvöfalt í vor, varð bæði Íslands- og bikarmeistari. Liðin sem mættust í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins, KA og Þróttur, mættust því í meistarakeppninni. Þar bætti KA enn einum bikarnum í safnið, vann viðureignina 3-2.

  • Unbroken-deild karla í blaki
    KA-heimilið kl. 15
    KA - Hamar 

Fyrsti leikur KA verður heimaleikur gegn Hamri á laugardag. Hamar beið síðan lægri hlut á móti Þrótti í undanúrslitum á meðan KA vann Aftureldingu. KA og Hamar mættust þrisvar í deildarkeppninni síðastliðinn vetur. Hamar vann eina viðureign, á Akureyri, en KA vann tvær, eina í Hveragerði og eina á Akureyri. KA og Þróttur enduðu jöfn með 56 stig eftir deildarkeppnina síðastliðinn vetur, en Hamar varð í 3. sætinu með 49 stig. 

- - -

Kvennalið KA hélt áfram sigurgöngu sinni þegar liðið mætti Völsungi í keppni um titilinn meistarar meistaranna um liðna helgi. Þar sem KA varð bæði Íslands- og bikarmeistari mættust liðin sem kepptu til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í vor. KA vann örugglega, 3-0, og bætti enn einum bikarnum í safnið. Nú er komið að fyrsta leik liðsins á Íslandsmótinu. Mótherjarnir á laugardag verða sameiginlegt lið Þróttar í Reykjavík og Blakfélags Hafnarfjarðar.

  • Unbroken-deild kvenna í blaki
    KA-heimilið kl. 17:30
    KA - Þróttur R./Blakfélag Hafnarfjarðar

Fyrsti leikur KA-kvenna verður gegn sameiginlegu liði Þróttar í Reykjavík og Blakfélags Hafnarfjarðar. Hið síðarnefnda tók þátt í bikarkeppninni í fyrra 

KA og Þróttur mættust þrisvar í deildarkeppninni í fyrravetur og vann KA allar viðureignirnar. KA varð deildarmeistari í vor, endaði með 49 stig, en Þróttarar urðu í næstneðsta sæti deildarinnar með 18 stig. Blakfélag Hafnarfjarðar spilaði í 1. deild á síðastliðnu tímabili og endaði þar í 3. sæti með 20 stig.

- - -

Ungmennalið SA, Jötnar, sækir Skautafélag Reykjavíkur heim í Laugardalinn í forkeppni Toppdeildar karla í íshokkí. Fyrstu vikur Íslandsmótsins, Toppdeildarinnar, fer fram forkeppni þar sem þrjú meistaraflokkslið, SA, SR og Fjölnir, og tvö ungmennalið, Jötnar frá SA og Húnar frá Fjölni, mætast í einfaldri umferð. 

  • Toppdeild karla í íshokkí, forkeppni
    Skautahöllin í Laugardal kl. 17:45
    SR - Jötnar

Jötnar hafa nú þegar unnið einn leik, en liðið mætti Húnum í Egilshöllinni síðastliðið föstudagsvöld og vann 11-2.

SUNNUDAGUR 21. SEPTEMBER - blak, fótbolti

KA og Hamar mætast tvisvar um komandi helgi, seinnileikurinn á sunnudag kl. 14.

  • Unbroken-deild karla í blaki
    KA-heimilið kl. 14
    KA - Hamar

- - -

KA mætir Þrótti R/Blakfélagi Hafnarfjarðar tvisvar um komandi helgi. Seinni leikurinn verður kl. 16:30 á sunnudag.

  • Unbroken-deild kvenna í blaki
    KA-heimilið kl. 16:30
    KA - Þróttur R./BLH

- - -

Eftir lokaleiki 22. umferðar Bestu deildar karla í gærkvöld varð ljóst að KA endaði í 8. sæti deildarinnar. Fyrsti leikur liðsins verður því heimaleikur gegn KR sem endaði í 10. sætinu. Samkvæmt fyrstu uppröðun er leikurinn settur á sunnudaginn 21. september.

Á vef KSÍ má sjá umferðaröðina í neðri hluta Bestu deildarinnar, en þar stendur þó enn að mótið sé í vinnslu, sem þýðir væntanlega að ekki séu allir leikdagar eða -tímar staðfestir. Leikir KA í neðri hlutanum verða, í þessari röð: Heima gegn KR, úti gegn Aftureldingu, heima gegn Vestra, heima gegn ÍA og úti gegn ÍBV. Lokaumferðin fer fram 25. október.

  • Besta deild karla, neðri hluti
    Greifavöllurinn kl. 16
    KA - KR

KA og KR mættust í 1. umferð Bestu deildarinnar 6. apríl og endaði sá leikur með 2-2 jafntefli. Þremur mánuðum síðar mættust liðin á heimavelli KR og þar hafði KA betur, 2-1.