Fara í efni
Mannlíf

Halli hleypur apríl fyrir stelpurnar

Haraldur Ingólfsson á hlaupum í akureyrskri hríð á Þórsvellinum í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson…
Haraldur Ingólfsson á hlaupum í akureyrskri hríð á Þórsvellinum í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þegar Haraldur Ingólfsson hleypur apríl er það engin lygi. Um leið og fyrsti dagur mánaðarins rann upp var hann tilbúinn með hlaupaskóna og annað tilheyrandi og hljóp af stað. Átakið Halli hleypur apríl er sem sagt hafið í annað sinn.

„Þetta er bara einfalt hjá mér, hlaupa 310 kílómetra eins og í fyrra, af sömu ástæðu, til að vekja athygli á knattspyrnuliðum kvenna á Akureyri og vonast til að safna smá styrkjum fyrir félagið,“ segir Haraldur Ingólfsson, sem lengi hefur starfað sem liðsstjóri, búningastjóri og raunar altmuligmand hjá fótboltaliðum Þórs/KA og Hamranna.

„Í fyrra valdi ég þessa vegalengd út frá því hve mörg pör af sokkum stelpurnar seldu í fjáröflunarskyni í febrúar/mars. Þær seldu 310 pör, ég hljóp 310 kílómetra. Nú var að vísu ekki sokkasala í upphafi árs og því vel ég bara sömu vegalengd aftur. Ég hljóp vegalengdina á einum mánuði í fyrra, veit núna að ég get það og er í betra formi nú en þá. Í fyrra gat ég það kannski af því að ég var of vitlaus til að vita að ég gæti það ekki! Núna get ég það af því að ég hef gert það áður,“ sagði hann við Akureyri.net í gær.

Halli hljóp hátt í 20 kílómetra í gær og þá eru „bara“ 217,96 kílómetrar eftir. „Þetta er nánast búið og enn 22 dagar eftir!“ sagði Haraldur og hló eftir að hann lét staðar numið í gær. Hljóp þá hring eftir hring í kalsaveðri á Þórsvellinum, en stundum hleypur hann hér og þar um götur bæjarins. „Fyrir hlaupið í dag var er ég búinn með um 75 kílómetra af þessum 310, sem er nánast jafn mikið og á sama tíma í fyrra. Munurinn núna er bara að ég er í betra formi, hleyp hraðar og er fljótari að jafna mig.“

Hann er hvergi banginn. „Ætli ég fari svo ekki bara að skrásetja vörumerkið Halli hleypur apríl og gera eitthvað meira og stærra í framtíðinni. Hver veit?“

Viltu styrkja fótboltastelpurnar?

Haraldur bendir á tvær leiðir til þess að leggja inn frjáls framlög.

  • Reikningur Harraldar sjálfs: reikningur 0566 - 26 - 2777, kennitala 280663 - 2639 - allir styrkir renna óskiptir inn á reikning hjá Þór/KA.
  • Reikningur styrktarfélags Þórs/KA: reikningur 0566 - 26 - 6004, kennitala 640909 - 1020