Fara í efni
Mannlíf

Hallgrímur semur áfram til tveggja ára

Hallgrímur Jónasson eftir að KA varð bikarmeistari sumarið 2024. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Hallgrímur Jónasson og knattspyrnudeild KA hafa skrifað undir nýjan tveggja ára samning og verður Hallgrímur því áfram þjálfari meistaraflokks KA næstu tvö árin hið minnsta. Greint er frá þessu á samfélagsmiðlum KA í morgun.

„Það eru spennandi tímar framundan hjá okkur KA-mönnum en ljóst er að breytingar verða á liðinu okkar og treystum við Hadda fullkomlega til að leiða félagið í þeirri vegferð. Hann hefur skipað lykilhlutverk í þeirri miklu uppbyggingu sem hefur átt sér stað innan félagsins undanfarin ár og hlökkum við svo sannarlega til að halda þessu góða starfi áfram með Hadda í brúnni,“ segir í tilkynningunni.

Kom til KA 2018

Hallgrímur gekk til liðs við KA fyrir sumarið 2018 eftir að hafa leikið sem atvinnumaður frá árinu 2009 með GAIS í Svíþjóð og dönsku liðunum SønderjyskE, OB og Lyngby BK auk þess lék hann 16 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og gerði í þeim þrjú mörk. „Haddi kom af gríðarlegum krafti inn í KA og sýndi strax hversu metnaðarfullur hann er bæði innan sem utan vallar. Það kom því ekki á óvart að Haddi kom í kjölfarið inn sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks fyrir sumarið 2020, fyrst með Óla Stefáni Flóventssyni og síðar með Arnari Grétarssyni.“

Mynd sem birt var með tilkynningunni á miðlum KA í morgun.

Hallgrímur neyddist til að leggja skóna á hilluna fyrr en ætlunin var eftir erfið meiðsli sumarið 2020 „en í framhaldi af því hefur hann lagt sig allan við þjálfunina og sótt helstu gráður á vegum UEFA. Undir lok sumarsins 2022 tók Haddi loks við sem aðalþjálfari KA og tryggði félaginu sæti í Sambandsdeild UEFA er KA endaði í 2. sæti efstudeildar.“

Í tilkynningu KA segir einnig:

 

„Liðið náði frábærum árangri í [Evrópukeppni] sumarið 2023 er KA komst alla leið í 3. umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar en tapaði loks gegn stórliði Club Brugge. Sama sumar fór liðið alla leið í úrslitaleik Mjólkurbikarsins og nýtti þá reynslu ári síðar er Haddi stýrði liðinu til fyrsta Bikarmeistaratitils í sögu KA sumarið 2024. Haddi var eðlilega kjörinn þjálfari ársins hjá félaginu fyrir þennan glæsilega árangur.

KA lék því aftur í Sambandsdeild UEFA í sumar er liðið féll úr leik gegn Silkeborg eftir framlengdan leik á Greifavellinum eftir hetjulega baráttu en liðin skildu jöfn 1-1 í Danmörku. Á dögunum tryggði KA sér áframhaldandi veru í deild þeirra bestu á næstu leiktíð þó enn séu tvær umferðir eftir af deildinni og verður það tíunda árið í röð sem KA leikur í efstudeild en aldrei í sögunni hefur KA leikið jafn lengi samfleytt í efstudeild í knattspyrnu.“