Fara í efni
Mannlíf

Hallgrímur gerði tvö mörk og KA fer í 3. sæti

Hallgrímur Mar fagnaði sigurmarkinu með tilþrifum; reif sig úr treyjunni og tók á sprett, renndi sér á hnjánum fyrir framan stúkuna og hneygði sig svo fyrir áhorfendum! Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Hallgrímur Mar Steingrímsson gerði bæði mörk KA þegar liðið vann Keflavík 2:1 á heimavelli í kvöld í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, Pepsi Max deildinni. KA er þar með komið upp að hlið Breiðabliks; bæði lið hafa 26 stig að loknum 14 leikjum, Víkingur er með 29 stig eftir 15 leiki og Valur efstur með 20 stig að loknum 14 leikjum.

Leikur KA og Keflavíkur var hraður og skemmtilegur. KA-menn voru mun meira með boltann en gestirnir sýndu hvað í þeim býr og að sannarlega má ekki vanmeta þá. Keflavík er með hörkulið þegar sá gállinn er á leikmönnum þess. Leikurinn þróaðist þannig að gestirnir hefðu í raun allt eins getað náð stigi, þótt sigur KA hafi verið sanngjarn. KA-menn hefðu getað bætt við mörkum en Keflvíkingar ógnuðu verulega í nokkur skipti í seinni hálfleik, þegar þeir náðu að halda boltanum drjúga stund og byggja upp góðar sóknir.

1:0 (24. mínúta) Sebastian Brebels vann boltann af einum Keflvíkinganna, sem gætti ekki að sér skammt utan eigin vítateigs. Belginn potaði boltanum til Elfars Árna Aðalsteinssonar sem sendi á Hallgrím Mar Steingrímsson í víteignum vinstra megin og sá skæði framherji hafði einkennilega mikið næði til að senda boltann laglega í hornið fjær.

1:1 (45.) Þrumuskot Keflvíkings small í hendi Þorra Mar Þórissonar innan vítateigs og Helgi Mikael Jónsson dæmdi réttilega víti. Joey Gibbs fékk það verkefni að taka spyrnuna og skoraði af miklu öryggi.

2:1 (80.) Eftir töluverðu pressu KA fékk Bjarni Aðalsteinsson boltann fyrir utan vítateig, sendi á Hallgrím Mar sem var einn á móti Keflvíkingi vinstra megin í teignum og skoraði með lúmsku skoti í fjærhornið úr býsna þröngu færi. Vel gert hjá Hallgrími en aftur virkuðu varnarmennirnir úr Bítlabænum undarlega áhugalitlir um að gera Hallgrími erfitt fyrir.

KA-menn hafa nú unnið þrjá leiki í röð, eru komnir í fína stöðu í deildinni og fróðlegt verður að fylgjast með næsta leik; þá sækja þeir Víkinga heim í Reykjavík næsta sunnudag. 

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.