Fara í efni
Mannlíf

Haldin ævintýraþrá og fluttu til Tenerife

Hjónin Anna Birna og Brynjólfur Gunnarsson.

Anna Birna Sæmundsdóttir og fjölskylda eru haldin ævintýraþrá og langaði að prófa að búa annars staðar en á Íslandi. Þau hjónin, Anna Birna og Brynjólfur Gunnarsson, fluttu til Tenerife og með þeim tvíburasynirnir Gunnar Skírnir og Sæmundur. Þeir stunda fjarnám frá Íslandi. Elsti sonurinn flutti til Bandaríkjanna í nám en dóttirin, Bjarney Rún, varð eftir á Íslandi.

Fjölskyldan hafði nokkrum sinnum komið til Tene og heillast af öllu því sem eyjan hafði upp á að bjóða. Í samtali við Akureyri.net sagði Anna Birna að gott loftslag, afslappað mannlíf, góður matur, gott verðlag og frábær aðstaða til hvers kyns útivistar hefði heillað, auk þess sem heimamenn væru virkilega vinalegir.

Bambú-bar og Tenerife-ferðir

Anna Birna er menntaður nuddari og hefur starfað við það í yfir 30 ár. Hún er auk þess jógakennari og einkaþjálfari og hefur alla tíð haft mikinn áhuga á heilsu og betri líðan fyrir sig og aðra. Anna Birna var ekki komin með vinnu þegar hún flutti út. Um það segir hún: „Ég ákvað að það myndi eitthvað koma upp í hendurnar á mér, sem það og gerði.“ Hún fékk vinnu á Bambú bar & bistro, sem er í eigu Höllu Birgisdóttur. „Það var mjög skemmtilegt og ég er þakklát fyrir þennan tíma“, segir Anna Birna. „En ég fann það mjög fljótt að ég flutti ekki til Tenerife til að vinna á bar og ekki heldur til að hanga á börum.“ Hún bætir við að það sé þó nauðsynlegt að kíkja reglulega á mannlífið og fá sér drykk í góðum félagsskap. Anna Birna vinnur nú hjá Tenerife-ferðum en þar á að bjóða upp á ýmsar ferðir tengdar hreyfingu, heilsu og vellíðan. Það er Anna Birna á heimavelli og elskar að fá að vinna við sitt helsta áhugamál. Þessar ferðir eru þó ekki komnar á fullt vegna Covid-19.

Brynjólfur, eiginmaður Önnu Birnu, er stýrimaður á Hákoni EA-148 og heldur því áfram. Hann getur tekið góð frí og kemur þá heim til að njóta lífsins og hvílast í hita og sól.

Covid

„Þessi ótrúlega Covid-veira er búin að hafa víða áhrif eins og við vitum og við fjölskyldan höfum alveg fengið að finna fyrir því eins og margir aðrir. Í raun hefur tíminn frá því við fluttum út verið mikil áskorun, segir Anna Birna. Fimm mánuðum eftir flutningana, í mars 2020, ætlaði fjölskyldan að hittast á Íslandi og eiga tíma saman. „En þá lokaðist allt“, segir Anna Birna „og við komumst ekki til Tenerife og sonur okkar ekki til Bandaríkjanna þannig að við ílengdumst öll á Íslandi fram á haustið 2020. Maðurinn minn hélt sínu striki á sjó og við erum svo heppin með fólkið í kringum okkur, ættingja og vini, sem aðstoðuðu okkur með húsnæði á meðan á þessu stóð.“

Og Anna Birna heldur áfram:

„Um tíma vorum við meira að segja að hugsa um að fresta þessu ævintýri okkar á Tenerife um óákveðinn tíma því það var ekki auðvelt fyrir Billa manninn minn að fljúga á milli og jafnvel ekki víst að hann kæmist til okkar í fríum. En við tímdum því ekki og ekki að sleppa íbúðinni sem við erum búin að vera með síðan við fluttum; en við leigjum af yndislegri, spænskri fjölskyldu sem er búin að reynast okkur virkilega vel og koma á móts við okkur, lækka leiguna og fleira, sem er ekkert sjálfsagt. Þannig að hér erum við ennþá og tökumst áfram á við áskoranir og verkefni sem við fáum upp í hendurnar“, segir Anna Birna.

„Ég hef ekki orðið svona lasin síðan ég var unglingur“

Á nýju ári greindust hjónin með Covid-19 og voru í einangrun í sitt hvoru landinu; hún á Tenerife en hann á Íslandi.

Um það segir Anna Birna:

„Þó ósk okkar hefði verið að geta verið saman átti Billi að fara á sjó strax á nýju ári svo hann fer í covid-test á Tenerife áður en hann flýgur til Íslands og greinist neikvæður. En á landamærunum greinist hann jákvæður þannig að hann missir af fyrsta túr og endar á sóttvarnarhóteli í 7 daga. Hann varð ekki veikur en ég aftur á móti fékk held ég öll einkenni sem hægt var að fá. Ég hef ekki orðið svona lasin síðan ég var unglingur, og er bara virkilega heilsuhraust og í góðu formi. En þegar ég hresstist þá kom orkan, gleðin og þolið strax og engin eftirköst, nema ég finn að það vantar aðeins upp á lyktar- og bragðskyn, en það kemur!“

Áhrif Covid á Tenerife

Þar sem fjöldi Íslendinga dvelur á Tenerife í lengri eða skemmri tíma var Anna Birna spurð um áhrif veirunnar á eyjunni. Hún svarar:

„Covid hefur almennt ekki mikil áhrif á daglegt líf hér á Tenerife og ég get ekki fundið að fólk hræðist það almennt“, segir Anna Birna. „Gríman virðist vera aðal vopnið hér eða allavega finnst mér vera lögð mikil áhersla á hana og svo sprittið. En annars heldur lífið áfram sinn vanagang þó auðvitað sé hægt að finna að þetta ástand er búið að hafa mikil áhrif á mannlífið; veitingastaði, fyrirtæki o.fl. en allir berjast við að halda áfram og láta þetta hafa sem minnst áhrif. Þessi veira er óútreiknanleg og þótt flestir sleppi við mikil veikindi, sem betur fer, þá eru ekki allir svo heppnir. Mín skilaboð til fólks eru að hvar sem þú býrð í heiminum, alls ekki gera lítið úr þessari veiru og öllu því fólki sem er að gera sitt besta til að halda utan um og stýra þessu á sem bestan veg“, segir Anna Birna að lokum.

Anna Birna og Bjarney Rún dóttir þeirra Brynjólfs.

Til vinstri: Hjónin Anna Birna og Brynjólfur ásamt tvíburunum Gunnari Skírni og Sæmundi . Til hægri: hjónin með Frosta syni þeirra og kærustu hans, Hörpu Lind, þegar þau fóru að sjá leik með knattspyrnuliðinu CD Tenerife í Santa Cruz.

Anna Birna Sæmundsdóttir nýtur útsýnisins í einni af mörgum gönguferðum úti í náttúrunni á Tenerife.