Fara í efni
Mannlíf

Hafa tásumyndir heiman að áhrif á vexti?

Gauti Einarsson apótekari í Akureyrar apóteki sér tilveruna gjarnan í skemmtilegu ljósi. Nú hefur hann lagt sitt lóð á vogarskálarnar til að flýta fyrir lækkun stýravaxta!

Áskorun. Ég vil hér með hvetja alla Íslendinga til að birta tásumyndir heiman að frá sér og flýta þannig fyrir lækkun stýrivaxta,“ skrifaði Gauti á Facebook vegg sinn í morgun. Margir hafa tekið beiðni hans vel enda sennilega flestir á því að vaxtalækkun sé mikilvæg.

Orð Ásgeirs Jóns­son­ar seðlabankastjóri eftir kynningarfund peningastefnunefndar bankans í haust vöktu mikla athygli. Bankinn hefur hækkað stýrivexti töluvert og hann ræddi eftir fundinn um kröftulega einkaneyslu á fyrri hluta ársins. Spurður hvernig hann yrði var við það svaraði Ásgeir, á léttum nótum, „Það voru all­ir að taka mynd­ir af tán­um á sér á Tene eða eitt­hvað álíka í sólbaði.“

Í kjölfarið var stofnaður Facebook hópurinn Tíðar tásumynd­ir frá Tene og ekki hefur vantað myndir á þeim vettvangi enda efniviðurinn nægur; íslenskar tær ku afar fjölmennar á Tene um þessar mundir.

Nú hefur Gauti apótekari sem sagt gripið til sinna ráða. Íslenskar tær hér heima eru að sjálfsögðu mun fleiri en á Tenerife og fróðlegt verður að sjá hvaða áhrif sú staðreynd hefur á peningastefnunefnd Seðlabankans!