Fara í efni
Mannlíf

Hættir eftir 59 ára starf á sama stað!

Gunnar B. Áspar á síðasta vinnudeginum fyrir ÚA, ásamt Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, til vinstri, og Kristjáni Vilhelmssyni, útgerðarstjóra fyrirtækisins.

Gunnar B. Aspar lauk störfum hjá Útgerðarfélagi Akureyringa fyrir jól, eftir 59 ár og hálfu betur í vinnu hjá „fyrirtækinu við Fiskitanga“ eins og hann kallar það. Fyrirtækið hét Útgerðarfélag Akureyringa (ÚA) þegar Gunnar hóf þar störf, varð síðar Brim og svo ÚA að nýju eftir að Samherji keypti félagið.

Á heimasíðu Samherja birtist í gær ítarlegt og skemmtilegt viðtal við Gunnar. Þar er því meðal annars haldið fram að hann hafi nokkrum sinnum á síðustu árum sagt eitthvað á þessa leið við nýjan starfsmann: Ég vann með langafa þínum/langömmu þinni hér í byrjun sjöunda áratugarins! Hann byrjaði sem liðléttingur og handflakari, varð síðar aðstoðarverkstjóri, verkstjóri, framleiðslustjóri og sérstakur ráðgjafi.

Gunnar hóf störf hjá Útgerðarfélagi Akureyringa sem sumarstarfsmaður í júní árið 1962, rétt að verða 13 ára. Í greininni segir að á þeim árum hafi það verið almenn regla að krakkar færu kornungir út á vinnumarkaðinn. Stærstu vinnustaðirnir á Akureyri voru Sambandsverksmiðjurnar, ÚA, sláturhús og verslanir KEA og niðursuðuverksmiðja K. Jónssonar. Algengt var að unga fólkið ynni hjá sama vinnuveitanda sumar eftir sumar og hélt oftast tryggð við það fyrirtæki sem réð það í fyrsta sumarstarfið. Þannig var það með Gunnar og hann starfaði líka hjá ÚA í jólafríum. Hann segir tvo ungmennataxta hafi verið hjá verkalýðsfélögunum á þessum árum: „12 ára krakkar fengu greitt eftir unglingataxta, svo færðist maður upp á svonefndan 14 ára taxta og fékk fullorðinskaup 16 ára gamall.“

Gunnar lærði líka snemma að handflaka fisk, bæði bolfisk og flatfisk, og svo fór að hann komst á fullorðinskaup strax 14 ára! „Þegar ég hóf störf var ein bolfiskflökunarvél í ÚA af gerðinni Baader 338. Hún var fyrir þorsk, ýsu og ufsa af smá- og millistærð. Allur annar bolfiskur var handflakaður. Ég segi stundum að mæðurnar á Eyrinni hafi kennt okkur krökkunum handtökin við vinnsluna, því þær voru nokkrar konurnar í ÚA sem kenndu okkur handbrögðin,“ segir hann í viðtalinu, og nefnir sérstaklega Rut Björnsdóttur í því sambandi. Fiskurinn var vigtaður í hvern og einn í flökuninni og vigtaður aftur að flökun lokinni. „Ein fullorðin kona gekk á milli okkur, fylgdist grannt með vinnubrögðunum og spurði spurninga. Ég hélt að hún væri einhvers konar verkstjóri en hún reyndist vera trúnaðarmaður verkalýðsfélagsins. Ég komst að því með þeim ánægjulega hætti að við strákarnir 14 ára gamlir vorum komnir á fullorðinskaup. Konan hafði þá farið og rætt við Karl Friðriksson verkstjóra og bent honum á að við strákarnir flökuðum á við fullorðnu karlana og ættum að vera metnir eftir því og ættum skilið fullorðinskaup. Okkur þótti þetta mikil upphefð,“ segir Gunnar.

Eftir að Gunnar lauk prófi frá Gagnfræðaskóla Akureyrar vorið 1966 hélt 120 manna hópur gagnfræðinga í vikulanga útskriftarferð til Noregs, í beinu flugi frá Akureyri. Morguninn eftir að heim var komið hóf Gunnar sumarstarfið sitt hjá ÚA. „Það teygðist aðeins á þessu sumarstarfi mínu, og því lauk sem sagt núna rétt fyrir jólin 2020, fimmtíu og níu og hálfu ári eftir að ég réð mig fyrst til starfa hjá ÚA!“ segir hann í viðtalinu.

Viðtalið við Gunnar

Gísli Konráðsson og Vilhelm Þorsteinsson, framkvæmdastjórar ÚA, ræða málin við Gunnar B. Aspar (lengst til vinstri) og Kristján Einarsson. Myndin er tekin um 1970. Til hægri eru Gunnar ásamt forstjóra Samherja, Þorsteini Má Baldvinssyni, og útgerðarstjóranum, Kristjáni Vilhelmssyni, syni Vilhelms fv. framkvæmdastjóra ÚA.