Fara í efni
Mannlíf

Gróðursett í samfélagsgarð á Amtinu

Jóhann Thorarensen sýnir stúlkum á sumarlestrarnámskeiði Amtsbókasafnsins tökin við gróðursetninguna. Mynd: Amtsbókasafnið.

Við höfum áður sagt frá hugmyndaauðgi og fjölbreytilegum verkefnum sem starfsfólkið á Amtsbókasafninu tekur sér fyrir hendur, utan þess að lána út bækur. Nú er að verða til lítill samfélagsgarður að húsabaki hjá safninu þar sem ræktaðar eru ýmsar mat- og kryddjurtir. Ekki nóg með það heldur er öllum frjálst að gæða sér á og grípa með sér í snarl í heimsóknum sínum á bókasafnið, að því er fram kemur í pistli á Facebook-síðu safnsins. Enn þarf þó smá þolinmæði við bið eftir að því sem sáð hefur verið á fyrstu dögum garðsins vaxi og verði að nytjajurtum fyrir gesti safnsins.

Í pistlinum á síðu safnsins segir einnig að ræktunin fari fram í afgangs pvc-rörur sem fengin voru hjá Norðurorku. Þar segir einnig:

Börn á sumarlestrarnámskeiði sáðu fyrir spínati og gróðursettu fyrstu plönturnar í dag undir handleiðslu Jóhanns Thorarensen: grænkál, graslauk og jarðarber. Börnin fengu svo að skreyta kerin sem þau sáðu í. Næstu tvær vikur koma ný börn á sumarlestrarnámskeið sem einnig munu gróðursetja í kerin. Þegar líður á sumarið vonumst við til þess að hér verði kominn blómlegur matjurtagarður sem gestir safnsins geta hugað að í sameiningu og nýtt sér uppskeruna.