Fara í efni
Mannlíf

Gríðarlega mikilvægur sigur á Keflvíkingum

Ísfold Marý Sigtryggsdóttir kom Þór/KA í 2:0 með stórglæsilegu marki. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Ísfold Marý Sigtryggsdóttir kom Þór/KA í 2:0 með stórglæsilegu marki. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/​KA sigraði Keflavík 3:1 í dag á útivelli í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Aðstæður voru ekki þær bestu, Suðurnesjalognið var á fleygiferð og á tímabili rigndi töluvert en þegar upp var staðið skipti aðeins eitt máli: Þrjú gríðarlega mikilvæg stig bættust í safnið.

Eftir sigurinn eru Stelpurnar okkar nánast úr fallhættu; stærðfræðilega er hætta enn fyrir hendi en líkurnar á falli eru eins nálægt því að vera engar og mögulegt er … Þór/​KA komst upp fyrir Keflavík með sigrinum, hefur nú 17 stig í sjöunda sæti og Keflavík er með 16 stig. Tvö lið falla; Afturelding er næst neðst með 12 stig og KR neðst með sjö og þegar fallið.

Eftir tíðindalítinn fyrri hálfleik í dag lagði Þór/KA grunninn að sigrinum með tveimur mörkum á síðustu fimm mínútunum.

  • Margrét Árnadóttir kom Þór/KA í 1:0 þegar hún komst inn í afleita sendingu frá varnarmanni Keflvíkinga ætlaða markverðinum, Samantha Murphy, Margrét lék á markmanninn og skoraði auðveldlega.
  • Rétt áður en fyrri hálfleikurinn var blásinn af komst Þór/KA í 2:0. Andrea Mist Pálsdóttir tók hornspyrnu, boltinn var skallaður út fyrir teig þar sem Ísfold Marý Sigtryggsdóttir hikaði ekki heldur þrumaði að marki og boltinn small í netinu uppi við samskeytin. Stórglæsilegt mark!
  • Ekki voru margar mínútur liðnar af seinni hálfleik þegar Hulda Ósk Jónsdóttir kom Þór/KA í 3:0. Eftir hornspyrnu fékk hún boltann í miðjum teig og skoraði.

Kefla­vík minnnkaði muninn á 68. mín­útu en nær komust heimamenn ekki og leikmenn Þórs/KA fögnuðu glæsilegum og sanngjörnum sigri.

Tvær umferðir eru eftir í deildinni. Þór/KA fær Stjörnuna í heimsókn næsta sunnudag og mætir KR á útivelli í síðustu umferðinni, laugardaginn 1. október

 Afturelding, sem er næst neðst, getur komist upp fyrir Þór/KA með því að vinna báða leikina, að því tilskyldu að Þór/KA fái ekki fleiri stig. Afturelding á eftir að leika gegn ÍBV í Eyjum og Val á heimavelli – lið Vals er efst og komið með níu fingur á Íslandsbikarinn.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.