Fara í efni
Mannlíf

Grænfáninn afhentur Síðuskóla í 8. skipti

Grænfáninn dreginn að hún við Síðuskóla í gær.

Síðuskóli fékk Grænfánann í áttunda skipti í gær og haldin var hátíð þegar fáninn var dreginn að húni.

„Skólar á grænni grein er alþjóðlegt umhverfismenntarverkefni sem rekið er af Landvernd á Íslandi. Markmið Grænfánaverkefnisins er að auka umhverfismennt, sjálfbærni og styrkja umhverfisstefnur skóla. Meirihluti leikskóla Akureyrarbæjar og nokkrir grunnskólar taka þátt og hafa gert um nokkurt skeið,“ segir á vef bæjarins.

„Síðuskóli hefur verið Grænfánaskóli frá árinu 2006 og í fyrravor var stefnan að fá fánann í áttunda sinn en vegna samkomutakmarkana var ákveðið að fresta því. Það var því kærkomin stund í gær þegar Guðrún Schmidt fulltrúi Landverndar afhenti viðurkenninguna og var ákveðið að blása til hátíðar utandyra í sumarblíðu.“

Þema skólans fyrir umsókn um fánann var lýðheilsa. Heildarútkoma úttektarinnar er eftirfarandi:

„Síðuskóli var með víðtæk markmið í tengslum við lýðheilsu og úrgang og fann fjölbreyttar leiðir til þess að vinna að þeim. Starfsfólk í grænfánanefnd og verkefnastjóri eru áhugasöm og kraftmikil og greinilegt að verkefnið nær að valdefla nemendur. Í Síðuskóla er unnið flott starf í menntun til sjálfbærni og hvetjum við ykkur til áframhaldandi góðra verka. Þið hafið náð þeim góða árangri að fá grænfánann afhentan í 8. sinn. Innilega til hamingju með það!“

Smellið hér til að sjá fleiri myndir.