Gorkúlugallerí – ný orka með nýju fyrirkomulagi
Leirlistakonan Margrét Jónsdóttir opnar sitt fyrsta Gorkúlugallerí í dag með fjölbreyttum blómavösum. Pop-up galleríið markar upphaf nýrra áherslna hjá Margréti sem ætlar sér héðan í frá að einbeita sér meira að sýningarhaldi og því sem hugurinn stendur til hverju sinni.
„Ég hef verið að vinna í minni leirlist frá því ég var 25 ára og hef alltaf haft fastan opnunartíma í gallerínu, tvo daga á veturna og alla virka daga á sumrin. En allt í einu fann ég að það var kominn tími til að breyta um stefnu,“ segir Margrét sem í stað fasts opnunartíma ætlar að bjóða af og til upp á gorkúlugallerí, þ.e.a.s. að þegar hún er tilbúin með eitthvað sem hún vill sýna og selja þá skýst hún upp eins og gorkúla og hefur þá opið í nokkra daga. Hennar fyrsta Gorkúlugallerí, poppar upp í dag fimmtudag og stendur til laugardags á leirkeraverkstæði hennar að Gránufélagsgötu 48.
Vasar í fjölbreyttum stærðum og gerðum eru þemað á fyrsta Gorkúlugallerí Margrétar sem mun spretta reglulega upp þegar hún hefur eitthvað sem hún vill sýna og selja..
Vasar að vori
„Núna er ég aðallega að leggja áherslu á vasa. Mér fannst það við hæfi af því það er að vora, eða svo hélt ég, en kannski verður fólk bara að setja frostrósir í vasana?“ segir Margrét og slær á létta strengi. Hún segist sjá fyrir sér að fyrir þessi pop-up gallerí búi hún eingöngu til það sem hugur hennar stendur til hverju sinni. „Þegar maður er með gallerí þá er hugurinn alltaf fastur við það að passa upp á að það sé til nóg og fjölbreytt úrval. Það hefur náttúrlega rekið mikið eftir mér í gegnum árin en í staðinn hef ég ekki haft eins mikinn tíma til þess að vinna eingöngu að því sem mig sjálfa hefur langað til. Þannig að nú er komið að því. Ég finn að tíminn er orðinn dýrmætari og orkan líka, þannig að nú ætla ég að gefa mér meiri tíma fyrir mín gæluverkefni og sýningarhald.“
Hræðilegt að segja nei
Margrét hætti að hafa fastan opnunartíma á galleríinu um áramótin og segist strax hafa fundið mikinn mun á sköpunargleðinni. „Ég fann strax að það kom ný orka með þessu fyrirkomulagi. Ég gef mér meiri tíma til að skapa, er frjálsari og er minna í því að uppfylla þarfir viðskiptavinanna. Ég hef í gegnum tíðina unnið mikið eftir pöntunum en ég er svona meira og minna að hætta því,“ segir Margrét og bætir við að stóra hörmungin við þetta allt saman sé að segja nei við fólk. „Það er hræðilegt því ég á svo dásamlega kúnna sem hafa haldið tryggð við mig í öll þessi ár. En ég segi samt alltaf að ég sé ekki hætt, ég þarf bara að gefa sjálfri mér þetta rými núna. Fólk þarf bara að fylgjast með þegar ég set inn myndir á Facebook eða Instagram af því sem ég er að gera og grípa tækifærið á Gorkúlugalleríunum.“
Opnunartíminn á Gorkúlugallerí Margrétar að þessu sinni er eftirfarandi: 25. - 26. maí kl. 15-18, og 27. maí kl.13-16. Næsta Gorkúlugallerí verður svo í kringum 17. júní.
Tvær sýningar í bígerð
Í ljós kemur að nýja fyrirkomulagið hefur gefið Margréti rými til að vinna að verkum fyrir tvær nýjar sýningar. Önnur sýningin verður sett upp í Listagilinu en dagsetning hefur enn ekki verið negld niður en hin sýningin tengist Berjadögum, árlegri tónlistarhátíð á Ólafsfirði sem í ár verður haldin dagana 3.-6. ágúst. „Ég og vinkona mín Helga Pálína textíllistakona eigum lítinn kofa í Ólafsfirði og ætlum að vera með smá sýningu fyrir utan kofann en inni verður tónlistaratriði á vegum Berjadaga,“ segir Margrét og heldur áfram; „Ég hef verið mjög sátt í mínu starfi og fundist það gaman. En ég er líka mjög ánægð með þessa stefnubreytingu núna. Ég hef unnið svo mikið undir tímapressu í öll þessi ár. Hinir og þessir hlutir hafa þurft að vera tilbúnir á réttum tíma fyrir brúðkaup eða stórafmæli og ég hef tekið rosa mikla ábyrgð á þessum gjöfum, bara eins og ég væri sjálf að fara í afmælið með gjöfina. Það hefur auðvitað verið algjörlega mér að kenna en ég er núna að breyta minni hugsun. Mér finnst spennandi að hafa meiri tíma og ró fyrir hlutina og safna verkum á sýningu. Það er allt öðruvísi tilfinning.“
Fallegir nytjahlutir hafa alltaf verið aðalsmerki Margrétar. „Ég elska að gera nytjahluti því mér finnst svo gaman að handleika fallega hluti hversdags. Það eykur svo mikið gleðina í hversdagsleikanum að hafa fallega hluti í kringum sig,“ segir hún.
Eykur gleðina í hversdeginum
Fram til þessa hafa nytjahlutir verið aðalsmerki Margrétar en aðspurð hvort það sé að verða einhver stefnubreyting þar á reiknar hún ekki með því. „Ég elska að gera nytjahluti því mér finnst svo gaman að handleika fallega hluti hversdags. Það eykur svo mikið gleðina í hversdagsleikanum að hafa fallega hluti í kringum sig. Ég er voða lítið fyrir það sem heitir spari. Mér finnst hversdagsleikinn vera spari og spari hversdags. Þess vegna segi ég að þeim mun dýrari kjól sem þú kaupir þeim mun meira áttu að jussast í honum, og ekki vera að spara hann. Annars fúlnar hann bara inn í skáp. Eins með keramikkið ef maður er að kaupa dýrt handgert keramikk þá á maður að nota það þeim mun meira.“