Fara í efni
Mannlíf

Góð uppskera krakkanna í Oddeyrarskóla

Í síðustu viku tóku krakkarnir í Oddeyrarskóla upp grænmeti úr litla matjurtagarðinum sínum. Garðurinn er eins konar innigarður, umlukinn veggjum skólans og aðeins hægt að komast þangað innan frá. Sagt er frá þessu á vef Akureyrarbæjar og vísað í umjöllun á heimasíðu skólans.

Uppskeran var mestmegnis kartöflur og gulrætur sem krakkar í 1. bekk höfðu sett niður síðasta vor eftir umræður um sjálfbærni og nú þegar komið var að því að uppskera rímaði það ákaflega vel við bókina Blómin á þakinu sem er lesin í byrjendalæsi í 1. og 2. bekk í skólanum. Bókin fjallar um Gunnjónu sem flytur úr sveit í borg og saknar sveitalífsins mikið og matjurtargarðsins síns.

Vonast er til að framhald geti orðið á þessu verkefni á skólalóðinni og að hægt verði að færa aðeins út kvíarnar næsta vor með því að stinga upp stærra svæði og fjölga fiskikörum sem grænmetið er sett niður í.

„Það gladdi krakkana mjög að sjá uppskeruna eftir sumarið og ekki var verra að Marta Urszula Majda matráður notaði grænmetið í máltíðir handa nemendunum því það bragðast allt best sem maður setur niður og tekur upp sjálfur,“ segir á vef Akureyrarbæjar.

Sjá heimasíðu Oddeyrarskóla