Fara í efni
Mannlíf

Gleðin við völd í gær hjá Sjálfsbjörgu – MYNDIR

Ljósmyndir: Þorgeir Baldursson

Gleðin var við völd á árlegu jólaballi Sjálfsbjargar, félags fatlaðra á Akureyri, sem haldið var á Hótel KEA í gær.

Á fjórða tug barna mætti til leiks og skemmti sér með hefðbundnum hætti; dansað var í kringum jólatré og sungið með Hermanni Arasyni sem lék á gítarinn. Jólasveinar rötuðu rétta leið og léku á als oddi, færðu börnunum vitaskuld góðgæti úr pokum sínum en bræðurnir vöktu ekki síst athygli viðstaddra sakir þess  hve mjög þeir ásældust nýsteiktar og afar girnilegar kleinur sem voru á boðstólum. Einhver hafði á orði að hugsanlega hefðu matarvenjur bræðranna eitthvað breyst frá því á árum áður en velti því jafnframt fyrir sér hvort áður óþekktur sveinn – kleinukrækir – væri kominn í leitirnar og bræðurnir því 14.