Fara í efni
Mannlíf

GLEÐILEGA ÞJÓÐHÁTÍÐ!

Í dag eru 77 ár síðan lýðveldið Ísland var stofnað á Þingvöllum við Öxará, árið 1944. Hátíðarhöld á Akureyri í tilefni dagsins verða á öðrum og lágstemmdari nótum en áður vegna samkomutakmarkana; eftir skrúðgöngu verður samkoma í Lystigarðinum eftir hádegi en ekkert verður um að vera í miðbænum, hvorki um miðjan daginn né kvöldið, eins og áralöng hefð er fyrir.

Nýstúdentar verða brautskráðir frá Menntaskólanum á Akureyri fyrir hádegi að vanda og tilkynnt er í 17. júní dagskránni að stúdentar muni marsera um Lystigarðinn eftir hádegi. Nýstúdentar hafa árum saman farið úr útskriftarveislu í Íþróttahöllinni og sett skemmtilegan svip á miðbæinn um miðhætti, en af því verður augljóslega ekki nú því engin er útskriftarhátíðin í kvöld og heldur ekki samkoma í miðbænum.

Sá skemmtilegi siður hefur verið endurvakinn að Blómabíllinn aki um götur bæjarins 17. júní. Margir muna eftir þeirri hefð á árum áður; meðfylgjandi mynd er tekin árið 1977 – þarna er skreyttur vörubíll Kristjáns Friðriks Júlíussonar heitins, sem ók farartækinu vinsæla um bæinn það árið.

Akureyri.net óskar lesendum sínum innilega til hamingju með daginn!

Smellið hér til að sjá upplýsingar um dagskrá 17. júní á Akureyri.