Fara í efni
Mannlíf

Gerir upp hús á Ítalíu og safnar á Karolina Fund

www.facebook.com/CasaMariaSinalunga

Akureyrska listakonan María Jónsdóttir hefur hrundið af stað söfnun á Karolina Fund þar sem hún óskar eftir stuðningi við spennandi verkefni sem hún er með í gangi í Toskana hérðaðinu á Ítalíu.

María hefur lengi verið búsett á Ítalíu þar sem hún starfar sem listmálari. Hún ólst upp á Akureyri og þangað liggja ræturnar, en listakonurnar Margrét Jónsdóttir, leirkerasmiður og Þórdís Jónsdóttir sem þekkt er fyrir fallegan útsaum, eru systur hennar

María festi nýlega kaup á húsi sem hún er að gera upp og ætlar sér í framtíðinni að bjóða þar upp á gistingu fyrir ferðafólk, fræðimenn og listafólk sem vill njóta lífsins í gömlum ítölskum miðaldarbæ. Húsið þarf á uppfærslu að halda og leitar María nú stuðnings á Karolina Fund til að ljúka framkvæmdunum. Í staðinn fyrir stuðning við verkefnið býður hún stuðningsaðilum gistingu og olíuverk eftir sig.

„Framkvæmdir eru í fullum gangi í Casa Maria eins og ég kalla nýja heimilið og leita ég eftir stuðningi ykkar við að gera húsið að fallegum og notalegum samverustað. Ég stefni að því að ljúka við uppbyggingu hússins í maí 2023 og verður fyrsta útleiga beint í kjölfarið. Casa Maria og töfrar Ítalíu bíða og munu taka vel á móti þér og þínum,“ segir María á síðu verkefnisins á Karolina Fund. Sjá nánar upplýsingar um söfnunina HÉR 

Vill gefa húsinu nýja sögu

Á Karolina Fund stendur einnig þetta um verkefnið; „Í byrjun ágúst 2022 keypti ég húsnæði í hinni fögru sveit Toskana á Ítalíu. Húsið er í miðaldabænum Sinalunga sem stendur uppi á hæð með vítt og breitt útsýni yfir Valdichiana dalinn. Ég hef búið á Ítalíu til fjölda ára en það var komið að kaflaskilum í mínu lífi og þá er um að gera að skapa ný ævintýri. Ég fann hús með tveimur íbúðum og vinnustofu, litlum garði, svölum og fallegu útsýni. Húsið er frá um 1600 og er teiknað af Leonardo Del Vegni sem hannaði leikhúsið í Sinalunga. Ég tók ákvörðun um að kaupa, gera húsið upp og leigja aðra íbúðina (stundum báðar) út til ferðafólks, lista- og fræða fólks. Ég hef hugsað mér að geta leigt íbúðina til lengri tíma í senn yfir vetrartímann fyrir fólk sem langar að stunda sín störf á Ítalíu um hríð. Íbúðirnar eru með eitt svefnherbergi og svefnsófa í stofu. Draumur minn er að gefa húsinu nýtt líf, nýja sögu og með góðri aðstoð ykkar í gegnum Karolina Fund veit ég að það getur ræst.“