Fara í efni
Mannlíf

Garn í gangi orðið að verslun í Listagilinu

Ragnheiður Jakobsdóttir og Sveina Björk Jóhannesdóttir í nýju versluninni. Ljósmynd: Skapti Hallgrím…
Ragnheiður Jakobsdóttir og Sveina Björk Jóhannesdóttir í nýju versluninni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Sérverslun með garn var opnuð í Listagilinu á Akureyri á laugardaginn, Garn í gangi heitir hún og er í eigu Sveinu Bjarkar Jóhannesdóttur og Ragnheiðar Jakobsdóttur.

Dyggir lesendur Akureyri.net gætu munað eftir umfjöllun um Sveinu og skemmtilegt framtak hennar með sama nafni frá því í nóvember, því þá hafði hún sett upp garnsölu í ganginum heima hjá sér! Nú er sú starfsemi sem sagt orðin að „alvöru“ verslun í miðbænum og ekki var annað að sjá en mikil þörf væri fyrir sérverslun af þessu tagi, því fjölmargir ráku inn nefið og keyptu garn á laugardaginn. Verslunin er ekki stór, telja þurfti inn til að allt væri í samræmi við sóttvarnarreglur, og lengi vel var röð á stéttinni fyrir utan.

Sveina kenndi árum saman við listnámsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri en þurfti að hætta vegna veikinda. Hún er öryrki og segist ekki geta unnið jafn mikið og hana langi til og Ragnheiður á og rekur Ferðaskrifstofu Akureyrar, þannig að þær verða ekki með verslunina opna á hefðbundnum tímum til að byrja með. Ætla sem sagt að standa vaktina sjálfar fyrst í stað en stefna að því að ráða sér starfskraft eftir að fyrirtækið kemst á legg.

Garn í gangi verður opin frá klukkan 14.00 til 18.00 á þriðjudögum, fimmtudögum og föstudögum, frá 10.00 til 14.00 á miðvikudögum og frá 11.00 til 15.00 á laugardögum. Lokað verður á sunnudögum og mánudögum.

Smellið hér til að lesa umfjöllunina um Garn í gangi í nóvember