Fara í efni
Mannlíf

„Garn í gangi“ stendur undir nafni

Sveina Björk Jóhannesdóttir á ganginum heima og þar skortir ekki garnið! Ljósmynd: Skapti Hallgrímss…
Sveina Björk Jóhannesdóttir á ganginum heima og þar skortir ekki garnið! Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Garn í gangi er nýstárlegt og skemmtilegt verkefni og stendur sannarlega undir nafni, því starfsemin felst í því að selja garn - í ganginum heima hjá Sveinu Björk Jóhannesdóttur.

Sveina Björk kenndi lengi textíl við Verkmenntaskólann á Akureyri en varð að hætta vegna veikinda. „Ég er textíl hönnuður að mennt og hef lengst af unnið við kennslu. Eftir að ég fór af vinnumarkaðnum varð ég að hafa eitthvað fyrir stafni hér heima og fór að prjóna miklu meira en ég hafði gert og fór að hanna sjálf. Eitt leiddi af öðru og ég ákvað að gefa sjálfri mér í fimmtugsafmælisgjöf að opna litla garnbúð hér heima,“ segir Sveina í samtali við Akureyri.net.

Hún fagnaði fimmtudagsafmælinu í september síðastliðnum og opnaði afmælisgjöfina um það leyti! „Ég sel bæði garn sem ég lita sjálf, og flyt inn frá Danmörku, auk þess sem ég er í samstarfi við tvær garnverslanir á höfuðborgarsvæðinu.“

Hún kveðst ekki síst hafa opnað verslunina til þess að hitta fólk. „Mig langaði að vera meira í sambandi við fólk. Það er svolítil hætta á því að einangrast félagslega þegar maður er svona mikið einn heima en ég var með opið einu sinni í viku og var þá í samskiptum við fólk. Covid hefur að vísu sett strik í reikninginn, hér var formlega opið á milli klukkan tvö og sex á þriðjudögum en segja má að ég hafi lokað í annarri bylgjunni. Síðan hef ég boðið fólki að hafa samband við mig og kíkja við þegar því hentar, svo hér verði ekki margir í einu. En vonandi get ég farið að opna aftur á hefðbundnum tíma.“

Síðustu tvo vetur stóð Sveina fyrir Hamingjustund á Icelandair hótelinu einu sinni í mánuði. „Það var mjög vinsælt, þarna komu frá 20 og allt upp í 40 konur í hvert skipti og prjónuðu saman í nokkra klukkutíma á laugardegi.“ Þær samkomur hafa ekki verið í vetur, vegna Covid.

Sveina Björk segir fólk greinilega hafa meira á prjónunum, bókstaflega, eftir að Covid faraldurinn skall á en fram að því og gleðst ekki síst yfir því að áberandi sé að yngri konur prjóni meira en áður. „Það er að minnsta kosti meira áberandi en áður, maður sér það svo vel í gegnum samfélagsmiðlana.

Búðarborð Sveinu vekur athygli blaðamanns; gamall hefilbekkur. „Afabróðir minn, Þórhallur frá Öngulsstöðum, gaf mér þennan bekk þegar ég opnaði vinnustofuna á sínum tíma, efti að ég útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskólanum. Þessi bekkur er úr gamla barnaskólanum á Laugalandi.“ Sannarlega óvenjulegt en glæsilegt búðarborð.

Ein sérverslun með garn hefur verið rekin á Akureyri undanfarin ár, Quiltbúðin, en henni verður senn lokað. Garn er selt í Nettó, Hagkaup, Rúmfatalagernum og A4, að sögn Sveinu Bjarkar en litla verslunin hennar verður innan tíðar sú eina þar sem garnið er lykilatriði.

Sveina er á Instagram og heldur úti prjónabloggþætti á youtube, þar sem hún útskýrir prjónalistina og segir frá því hvað hún er að fást við hverju sinni. Þá gerir hún reglulega grein fyrir því hvað hún býður upp á í ganginum heima. Vert er að geta þess að Sveina Björk er einnig með vefverslun - sveina.is