Fara í efni
Mannlíf

Garðurinn hans Gústa tekur á sig mynd

Eins gott að allt sé rétt! Óðinn Ásgeirsson og Guðmundur Ævar Oddsson með málbandið og Björn Sveinss…
Eins gott að allt sé rétt! Óðinn Ásgeirsson og Guðmundur Ævar Oddsson með málbandið og Björn Sveinsson í hlutverki eftirlitsmanns. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Aðeins er vika síðan platan var steypt í Garðinum hans Gústa, körfuboltavelli sem verið er að útbúa á lóð Glerárskóla. Um helgina hvarf svo grátt steypulagið sjónum manna þegar áberandi rautt og blátt „gólf“ var lagt á sinn stað, og settar voru upp nokkrar körfur.

Veg og vanda að verkinu hafa lærisveinar og vinir Ágústs H. Guðmundssonar heitins, körfuboltaþjálfara, sem lést langt fyrir aldur fram í byrjun árs. Nokkrir þeirra unnu við völlinn bæði á laugardag og sunnudag; hendur voru látnar standa fram úr ermum þótt kalt væri í veðri, enda hópnum umhugað um að ljúka ákveðnum þáttum áður en snjóar og frystir.

Ýmislegt er eftir, til dæmis að reisa netta áhorfendastúku og dýfa pensli í fötu til að merkja völlinn. Mannvirkið verður formlega afhent Akureyrarbæ næsta sumar.

Steypa plötuna í Garðinum hans Gústa

Skóflustunga tekin að Garðinum hans Gústa

Gamlir lærisveinar og vinir Ágústs H. Guðmundssonar, sem voru að störfum í Garðinum um helgina. Frá vinstri: Guðmundur Ævar Oddsson, Hrafn Jóhannesson, Björn Sveinsson, Óðinn Ásgeirsson og Einar Örn Aðalsteinsson.