Garði við Kjarrlund breytt í hryllingshús
Hrekkjavökuandinn var heldur betur tekinn á næsta stig hjá Andra Heiðari Ásgrímssyni og fjölskyldu sem breyttu garðinum sínum við Kjarrlund 1 í hryllingshús á hrekkjavökunni í gærkvöldi.
„Það voru allir himinlifandi,“ segir Andri ánægður þegar hann rifjar upp gærkvöldið. Hann hefur ekki töluna á fjölda þeirra sem komu við hjá þeim en fjöldinn var það mikill að fullur flutningskassi af sælgæti kláraðist og þurfti að fara út í búð eftir meira nammi. „Sumir krakkarnir urðu hræddir, aðrir bæði börn og fullorðnir dáðust bara að þessu. Það voru einhverjir sem þorðu ekki inn en þá þurfti maður bara að taka niður grímuna og sýna þeim að þetta væri allt í góðu."

Allir í fjölskyldunni höfðu sitt hlutverk í hryllingshúsinu. Hér er Andri Heiðar ásamt eldri dótturinni, Þórkötlu Maríu. „Hjá okkur snýst þetta um að gera eitthvað saman og sjá bros á vörum barnanna,“ segir Andri Heiðar en fjölskyldan eyddi rúmum mánuði í undirbúning.
Metnaðarfullur hryllingsheimur
Alls opnuðu um 160 heimili á Akureyri dyr sínar fyrir „grikk eða gott“ í gærkvöldi. Mörg þeirra voru vel skreytt í anda hrekkjavökunnar en það er óhætt að segja að Andri og dætur hans þær Þórkatla María, 10 ára, og Ásthildur Eva, 7 ára, hafi lagt óvenju mikinn metnað í skreytingarnar í garðinum við heimili sitt. Garðurinn, sem er mjög rúmgóður, er afgirtur með háum veggjum, sem hjálpaði til við að skapa góða umgjörð og stemningu fyrir sannkallaðan hryllingsheim. Blaðamaður getur staðfest eftir heimsókn þangað að garðurinn var sannkölluð veisla fyrir skynfærin. Þá varð mörgum gestum ekki um sel við komuna og gengu varkárir um garðinn, enda erfitt að sjá hvaða fígúrur væru lifandi og hverjar gínur. „Dæturnar vildu reyndar hafa hryllingshúsið hringinn í kringum húsið og í gegnum bílskúrinn líka. Ætli það verði ekki bara þannig á næsta ári,“ segir Andri sem er strax farinn að hugsa hugmyndir fyrir næstu hrekkjavöku.

Beinagrindabúrið vakti lukku.
Rúmlega mánaðar undirbúningur
Þetta er í annað sinn sem fjölskyldan tekur þátt í hrekkjavökunni en nú var stórlega bætt í skreytingarnar frá því í fyrra. Sjálfur segist Andri lengi hafa haft mikinn áhuga á beinagrindum og hauskúpum og vildi hann sífellt bæta við skreytingarnar. Eiginkonan, Þóra Björg Stefánsdóttir, hafi hins vegar frekar verið á bremsunni a.m.k í byrjun að sögn Andra, en svo hafi hún smitast af áhuganum og á endanum orðið sú sem hafi hvatt hann áfram. Undirbúningur hófst af fullum krafti hjá fjölskyldunni í lok september og síðan þá hafa fjölskyldumeðlimir eytt öllum frístundum í að smíða, líma, hnoða og skapa hrylling en mikið af skrautinu í garðinum var heimatilbúið. „Við bjuggum til draugana, hnoðum hausana úr dagblöðum og klipptum til lök,“ segir Andri en í ljós kemur að fjölskyldan hefur í raun verið út um allan bæ að safna efni og dóti fyrir hryllingsgarðinn t.d. timbri og hænsnaneti og þá var farið út í Kjarnaskóg og greinar týndar í nornaeldstæði, svo fátt eitt sé nefnt.

Það var margt um manninum í Kjarrlundi 1 í gærkvöld þar sem boðið var upp á metnaðarfullt hryllingshús.

Tækifæri til samveru
Þótt nútímaform hrekkjavökunnar sé að uppruna til bandarískt segist Andri Heiðar fyrst og fremst líta á hana sem tækifæri til samveru og gleði hjá fjölskyldunni. „Það er alltaf verið að spyrja mig af hverju ég sé að þessu en þetta er náttúrlega blanda af samveru með dætrunum og svo finnst okkur þetta líka öllum ótrúlega spennandi, bæði að búa til hlutina og sjá allt taka á sig mynd og lifna við.“ Í hans fjölskyldu er hrekkjavakan a.m.k komin til að vera og fjölskyldan mun pottþétt taka þátt á næsta ári. „Þetta er orðið eins og jólin hjá okkur. Við munum gera þetta á hverju ári, jafnvel þegar dæturnar eru fluttar að heiman. Þá kem ég bara til þeirra og hjálpa þeim við að reisa hryllingsgarð heima hjá þeim.“

Eigum við að þora inn? Margir stoppuðu við innganginn í garðinn og veltu fyrir sér hvort það væri óhætt að fara inn.

Þessi þriggja ára hnáta, Alena Móey, var á ferð með mömmu sinni Sædísi á hrekkjavökunni. Mæðgurnar voru einar af fjölmörgum gestum hryllingshússins við Kjarrlund 1.

Flottur vinahópur úr Lundaskóla á ferð á milli húsa á Hrekkjavökunni á Akureyri.

Þrír draugar í slabbinu.