Fara í efni
Mannlíf

Ganga 560 kílómetra yfir Grænlandsjökul

Hópurinn sem gengur yfir Grænlandsjökul á næstu viku. Aðalsteinn Árnason er fjórði frá hægri.

Akureyringurinn Aðalsteinn Árnason er í hópi átta Íslendinga sem ætla að ganga þvert yfir Grænlandsjökul, alls um 560 kílómetra leið, á næstu vikum. Hópurinn flaug í gær til höfuðstaðar Grænlands, Nuuk á vesturströndinni. Gengið verður af stað á morgun áleiðis til Isortoq á austurströndinni.

Vilborg Arna Gissurardóttir, pólfari og fjallagarpur, fer fyrir hópnum ásamt Brynhildi Ólafsdóttur, sem einnig er þrautreynd útivistarkona.

Enginn samur eftir svona ferð

„Þetta er rosalega langt ferðalag og með því stærra sem fólk gerir á lífsleiðinni,“ sagði Vilborg Anna í viðtali við Fréttablaðið fyrr á árinu. „Það kemur enginn samur úr svona leiðangri enda er þetta ekki síst andlegt, innra ferðalag þar sem þátttakendur þurfa að horfast blákalt í augu við sjálfa sig og eigin getu. En okkur langar að bjóða upp á þessa ferð því við höfum orðið varar við að fleiri og fleiri eru að verða tilbúnir að takast á við svona leiðangra,“ sagði Vilborg Arna.

Gangan tekur um það bil þrjár vikur og í henni felst mikil vinna, eins og það var orðað í Fréttablaðinu. „Á morgnana þarf að bræða snjó til drykkjar, fá sér morgunmat og ganga frá tjaldbúðunum, morgunverkin taka um tvær klukkustundir. Svo er skíðað í 8 til 12 klukkustundir og þá gefst tækifæri til innri íhugunar eða að hlusta á hljóðbækur áður en komið er í næturstað og í kvöldverkin sem taka einnig tvær klukkustundir,“ segir þar.

Mikilvægt að þekkja sjálfan sig

„Í þessu felst mjög mikil orkubrennsla og maður er að brenna yfir 5.000 hitaeiningum á dag svo það þarf að passa vel næringu og hvíld,“ sagði Vilborg. Aðspurð hvað sé best að borða í svo stórum ferðum segir hún mikilvægast að vera ekki með mat meðferðis sem dragi í sig mikinn vökva, hann frjósi í kuldanum.

„Við tökum allt með okkur, það er mikill þurrmatur, feitir ostar og svo svo smá möns, súkkulaði til dæmis. Ég er líka mjög mikið fyrir alls konar hnetublöndur,“ sagði Vilborg Arna.

Þá segir hún mikilvægt að vera skipulagður í ferðum sem þessum, passa vel upp á það hvernig orkan er nýtt og þekkja sjálfan sig vel. Hún segir að í upphafi og við lok ferðalagsins sé mikilfenglegt landslag en uppi á miðjum jöklinum sé mikil auðn.

„En á leiðinni er líka mjög áhugaverð ratsjárstöð, DYE2, sem var yfirgefin í kalda stríðinu,“ segir hún. „Það er eins og það hafi verið gengið út úr henni í gær, það eru ennþá vindlar í öskubökkunum og viskíflöskur á borðunum, ótrúlega magnað,“ sagði Vilborg Arna í Fréttablaðinu.

Hægt verður að fylgjast með framvindu mála á síðunni vertuuti.is

Hópurinn í gær eftir komuna til Nuuk, höfuðstaðar Grænlands.