Fara í efni
Mannlíf

Gamlir hlutir og ósvaraðar spurningar

Húsið sem Akureyringarnir Snæfríður og Matthías eru að gera upp á Tenerife.

Gömul hús hafa gjarnan bæði sál og sögu. Akureyringarnir, Snæfríður Ingadóttir og Matthías Kristjánsson, sem eru að gera upp gamalt hús á Tenerife hafa fundið ýmsa áhugaverða hluti í húsi sínu sem vakið hafa upp spurningar um sögu þess. Akureyri.net hefur í vetur fylgst með gangi mála hjá hjónunum og heyrði enn og aftur í Snæfríði.

Fyrri greinar:

Það finnst oft ýmislegt forvitnilegt í gömlum húsum. Brjóstmynd og barnaljósmyndir er m.a. þess sem fundist hefur í húsinu á Tenerife.

„Þegar við tókum við húsinu var bæði garðurinn og húsið sjálft fullt af dóti og drasli. Mest af þessu var ekki merkilegt en þó voru sumir þessara muna nokkuð persónulegir. Það er að mörgu leyti eins og einhver hafi bara farið héðan að heiman og ekki komið aftur. Rúmin standa t.d. enn uppi á neðri hæðinni. Auðvitað höfum við velt fyrir okkur hvað hafi eiginlega gerst? Hver flytur í burtu en skilur innrammaðar barnaljósmyndir eftir, nærföt og bréf,“ segir Snæfríður.

Sorgleg saga

Hjónin hafa aðeins reynt að grafast fyrir um sögu hússins en lítið orðið ágengt. „Húsið er líklega byggt í kringum 1970 og er í sjálfu sér ekki merkileg bygging. Það er byggt úr holsteini, efnivið sem þeir nota mikið hér á eyjunni. Við keyptum húsið af banka sem hafði tekið það upp í skuld og það hafði staðið autt í ein 12-15 ár áður en við tókum við því. Þannig að það var lítið af upplýsingum að hafa frá seljandanum. Hins vegar höfum við fengið smá upplýsingar frá nágrannanum sem sagði okkur að þetta hefði víst verið algjör paradís á sínum tíma með ávaxtatré í garðinum, blómstrandi gróður og sundlaug. Sá sem bjó hér átti víst líka lóðina við hliðina og var með stórar hugmyndir sem greinilega gengu ekki upp. Við vitum í raun ekkert meira um málið en þetta hefur fengið sorglegan endi þar sem húsið hefur fengið að grotna niður í einhver ár. Bankinn hirti jú eignina og líklega best að láta kyrrt liggja.“

Handtökin við hreinsunina á garðinum hafa verið ófá.

Hver er konan?

Ýmislegt forvitnilegt hefur fundist í húsinu, meðal annars brjóstmynd af konu. „Hún er frekar naíf og okkur sýnist hún vera úr gifsi sem þýðir að hún hefur örugglega verið notuð sem mót fyrir styttu, en hver þessi kona er höfum við engar upplýsingar um. Hún hlýtur nú að hafa verið eitthvað merkileg fyrst það var gerð brjóstmynd af henni. Eða hvað?“ segir Snæfríður og viðurkennir að hún hafi reyndar ekkert kunnað sérlega vel við brjóstmyndina í byrjun. „En svo tók ég hana í sátt og nú höfum við komið henni fyrir hér hátt upp á hillu og gefið henni það hlutverk að halda áfram að passa húsið enda hún verið hér a.m.k síðan síðustu eigendur fóru héðan.“

Steyptur hleri fannst í garðinum. Vonuðust hjónin til þess að vínkjallari leyndist undir hleranum en það reyndist þá bara vera gömul rotþró.

Örlögin og ruslaferðir

Skemmtilegasti fundurinn hefur þó verið alls konar Land Rover dót en Matthías er mikill aðdáandi þeirra bíla og keyrði fjölskyldan frá Akureyri til Tenerife sl. haust á 32 ára gömlum Land Rover. „Við vorum hér að taka til í húsinu, alveg buguð þegar við fundum haug af gömlum Land Rover blöðum, tvær Land Rover lyklakippur og allskonar Land Rover varahluti. Þá hugsuðum við bara að örlögin hlytu að hafa leitt okkur hingað. Það var a.m.k. afar skemmtileg tilviljun að fyrrum eigandi hafi líka verið Land Rover aðdáandi,“ segir Snæfríður.

Fyrrum eigandi hússins hefur kunnað að meta málshætti því þessi handskrifaði málsháttur er aðeins einn af mörgum málsháttum sem fundist hafa í húsinu. „Enginn hleypur hraðar en eigin skuggi.“

Hún telur að þau hjónin séu nú þegar búin að farga vel yfir fimm tonnum af dóti, gróðri og sérstaklega múrbroti úr húsinu og lóðinni, en enn er nóg eftir. „Hér eru engin klippikort eins og á Akureyri heldur máttu henda ákveðnu magni af rusli á hverjum degi án þess að greiða fyrir. Við höfum nýtt okkur þetta og fyllt spænska Land Roverinn okkar nánast daglega af drasli og farið með á næstu gámastöð. Starfsmennirnir þar eru farnir að þekkja okkur en sjálfur lítur Matthías á þessar ruslaferðir sem sína spænskukennslu. Starfsmennirnir vilja nefnilega alltaf spjalla við hann, ekki síst eftir að hann færði þeim íslenskan Þrist, sem féll heldur betur vel í kramið hjá þeim. Hins vegar fannst þeim vanta upp á spænsku kunnáttuna hjá honum, sérstaklega málfræðina, svo Matthías hefur heldur betur þurft að bæta spænskuna til þess að fá að losa draslið hjá þeim,“ segir Snæfríður og hlær.

Dvöl fjölskyldunnar ytra er hálfnuð svo nú þarf að fara að spýta í lófana hvað framkvæmdir í húsinu varðar. „Já en það þarf að gera þetta allt í réttri röð, þú byggir ekkert ofan á svona rusl, það þarf fyrst að losa sig við það,“ segir Snæfríður að lokum.

Það er gjaldfrjálst að henda rusli á Tenerife, þ.e.a.s. ef magnið fer ekki yfir ákveðið mörg kíló daglega. Matthías hefur nýtt spænska Land Roverinn undir ruslaferðir.

Þegar ekki er verið að vinna í húsinu fara hjónin gjarnan í fjallgöngur en mikið af fallegum gönguleiðum eru um alla eyju.

Þegar hjónin voru við það að bugast í framkvæmdunum fundu mikið af Land Rover dóti í húsinu og héldu þá að örlögin hefðu virkilega gripið í taumana og þeim hafi verið ætlað að eignast húsið.